Ísrael á ekki heima í Eurovision og víkja ætti þeim úr keppninni tafarlaust að sögn Stefáns Jóns Hafstein, stjórnarformanns RÚV.
Þetta kemur fram í skoðunarpistli hans á Vísi í dag. Tekið er fram að greinin er skrifuð í nafni Stefáns, ekki stjórnarinnar.
Stjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur ákveðið að blása til atkvæðagreiðslu í nóvember meðal aðildarstöðva í almannaþágu um hvort heimila eigi Ísrael áframhaldandi þátttöku í keppninni.
Ákvörðunin er tekin í kjölfar gríðarlegra mótmæla sem sprottið hafa upp víða í Evrópu vegna framgöngu ríkisstjórnar Ísraels gegn almennum borgurum á Gasa og Vesturbakkanum.
Útvarpsstjórar Norðurlandanna munu koma til með að funda um þessi mál í Reykjavík á komandi dögum.
Erindreki EBU, sem ætlað er að kanna hug þátttökuríkja, verður viðstaddur fundinn.
Í pistlinum þræðir Stefán sig í gegnum fjölda raka fyrir brottvísun Ísraels.
Hann vísar meðal annars til rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels, fremji þjóðarmorð á Gasa.
Þá hafi yfir 200 alþjóðlegar stofnanir og samtök fordæmt framgöngu Ísraels, þar á meðal Alþjóða rauði krossinn, Amnesty International og mannúðar- og mannréttindasamtök innan Ísraelsríkis, svo eitthvað sé nefnt.
Hann bendir einnig á þau fordæmi sem til staðar eru fyrir því að vísa þjóðum tímabundið úr keppninni, ekki síst ákvörðunina um að vísa Rússum úr keppninni í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.
Að mati Stefáns hefur stjórn EBU brugðist því að vera sjálfri sér samkvæm og segir hana seka um tvöfalt siðgæði að réttlæta þátttöku Ísraels en ekki Rússa.
Þá gagnrýnir hann harðlega að Ísrael hafi nýtt Eurovision í pólitískum tilgangi, falsað hljóðútsendingar til að kæfa mótmæli gesta og beitt ritstýringu á átakasvæðum í trássi við grundvallarreglur EBU um ábyrgð og áreiðanleika fréttaflutnings.
Hann bætir við að refsileysi EBU fyrir skipulögð morð og aftökur Ísraelsríkis á fréttamönnum sé yfirgengilegt og óafsakanlegt.
Í lok pistilsins hvetur Stefán norræna útvarpsstjóra til að sameinast gegn þátttöku Ísraels og vísa til þeirra gilda sem Norðurlöndin hafi löngum staðið fyrir í alþjóðlegu samstarfi.
„Það er tímabært að norrænu stöðvarnar allar segi: Hingað og ekki lengra,“ skrifar hann í lokin.