„Ég trúi því ekki að menn ætli sér að feta þá leið að afnema íbúalýðræði nokkurs staðar. En ef ráðherrann ætlar að slengja minni sveitarfélögum saman við stærri, þá er komin upp sú sérkennilega staða að verið er að þvinga stærri sveitarfélögin til sameiningar,“ segir Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps í samtali við Morgunblaðið.
Álits hans var leitað á þeim áformum Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra að fá sveitarstjórnarlögum breytt á þann veg að lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélagi verði 250 manns.
Helgi segir að fái ráðherra vilja sínum framgengt í þessu efni verði íbúalýðræði afnumið og ráðherra einum falið vald til sameiningar sveitarfélaga.
„Ég heyri á kjörnum fulltrúum fyrir austan að menn eru heldur ekki sáttir við þetta í stærri sveitarfélögunum. Ríkið er líka búið að svíkja Austfirðinga hvað varðar loforð sem gefin hafa verið í tengslum við sameiningu sveitarfélaga, svo sem um Fjarðarheiðargöng og almennilegan veg yfir Öxi sem lofað var þegar Múlaþing varð til. Nú stígur innviðaráðherra fram og segir að ríkið sé ekki bundið af gefnum loforðum,“ segir Helgi.
Hann nefnir einnig að í samtölum við kjörna fulltrúa hafi komið fram sú skoðun þeirra að staðið verði við áður gefin loforð tengd sameiningum sveitarfélaga, áður en farið verði í frekari sameiningar.
„Það hefur legið fyrir í tvo áratugi að Fljótsdælingar hafa engan áhuga á sameiningu við önnur sveitarfélög. Menn eru sælir með sitt. Ég heyri engan íbúa tala um þetta og þó þekki ég þá marga. Umræðan um sameiningu Fljótsdalshrepps við aðra fer fram í innviðaráðuneytinu, en ekki annars staðar. Það verður glatað sveitarfélag út úr þvingaðri sameiningu,“ segir Helgi.
Hann segir sveitarstjórnarmenn hafa hitt þingmenn kjördæmisins fyrr í þessari viku og þar hafi verið farið yfir þessi mál.
„Ég gat ekki heyrt annað en að það væri samhljómur með öllum þingmönnunum um að lýsa yfir andstöðu við þann þátt frumvarpsins sem mælir fyrir um þvingaða sameiningu sveitarfélaga. Fólk eigi að fá að ráða sér sjálft,“ segir hann.
Helgi vekur athygli á misræmi í tölum um íbúafjölda í Fljótsdalshreppi og reyndar víðar. Það birtist í því í tilviki Fljótsdalshrepps að skv. tölum Hagstofunnar eru íbúar sagðir 90 talsins sem er nokkru lægri tala en Þjóðskrá gefur upp.
„Það er ekki hlutverk Hagstofunnar að halda utan um þessi mál. Hún á að sjá um hagskýrslugerð. Þjóðskrá hefur þetta hlutverk skv. lögum og samkvæmt henni erum við Fljótsdælingar 113,“ segir Helgi. Misræmis gæti einnig hjá öðrum sveitarfélögum hvað þetta varðar og segir Helgi það í sjálfu sér vera rannsóknarefni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
