Íslensk kona gagnrýnir harðlega ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa eiginmanni sínum úr landi og setja á hann tveggja ára endurkomubann. Hún segir málsmeðferðina hafa verið ruglingslega, ósanngjarna og andstæða grundvallarréttindum sínum sem íslensks ríkisborgara.
Anna Mist Guðmundsdóttir segir eiginmann sinn, Ali Abbas Sulieman, ríkisborgara frá Venesúela, hafa flúið heimaland sitt eftir að hann og fjölskylda hans urðu fyrir hótunum og fjárkúgun.
Ali hafi komið fyrst til Íslands í október 2022 og skömmu síðar kynnst Önnu Mist. Þau hófu sambúð í byrjun árs 2023, gengu í hjónaband í febrúar 2024 og keyptu saman íbúð á þessu ári.
„Við létum Útlendingastofnun vita eftir giftinguna. Hann fékk kerfiskennitölu, rafræn skilríki og bankareikning og við sóttum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara,“ segir Anna.
Skömmu síðar hafi þau fengið tilkynningu um að Ali þyrfti að yfirgefa landið innan ákveðins frests, sem kom þeim mjög á óvart.
„Ég hringdi í Útlendingastofnun og spurði hvort við þyrftum að hafa áhyggjur. Svarið sem við fengum var nei, að við værum gift og þyrftum því ekki að hafa áhyggjur,“ segir hún.
Nokkrum vikum síðar hafi Ali hins vegar verið boðaður í viðtal þar sem honum var tilkynnt að hann þyrfti að yfirgefa landið og að hann fengi tveggja ára endurkomubann fyrir að hafa ekki farið innan frestsins. Bannið tekur jafnframt til landa innan Schengen-svæðisins.
„Foreldrar hans búa í Þýskalandi, þannig að þetta bitnar ekki aðeins á okkur heldur einnig á þeim,“ segir Anna.
Að sögn Önnu réðu þau lögfræðing, kærðu ákvörðunina og reyndu að fella niður endurkomubannið auk þess að sækja aftur um dvalarleyfi en var öllum beiðnum þeirra hafnað.
„Við höfum eytt hundruðum þúsunda króna í að reyna að vera saman,“ segir hún.
Hún bætir við að þeim hafi verið tjáð að ekki væri hægt að vísa Ali úr landi á meðan kærur væru til meðferðar, nema lögregla handtæki hann og myndi honum úr landi með valdi. Þá hafi honum verið ráðlagt að draga kærurnar til baka, annars gæti endurkomubannið lengst í fimm ár. Í kjölfarið hafi Ali verið sendur úr landi í síðasta mánuði.
Anna segir málið hafa haft veruleg áhrif á heilsu þeirra beggja.
„Við höfum ekki getað sofið né borðað vegna kvíða. Ég var andlega brotin og þurfti að leita mér sálfræðiaðstoðar,“ segir hún.
Hún kveður eiginmann sinn nú varla stíga út úr húsi í Venesúela þar sem hann óttist um öryggi sitt og reyni að ljúka nauðsynlegri pappírsvinnu til að yfirgefa landið á ný.
Anna telur að meðferð málsins brjóti gegn grundvallarréttindum.
„Réttur til fjölskyldulífs er verndaður samkvæmt stjórnarskrá Íslands, Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Með því að viðhalda endurkomubanni á mann sem er í lögmætu hjónabandi við íslenskan ríkisborgara er verið að brjóta gegn þessum réttindum,“ segir hún.
Að hennar sögn var eiginmaðurinn vel settur hér á landi. Hann hafi getið sér gott orð sem plötusnúður á mörgum vinsælustu stöðum miðborgarinnar um helgar sem DJ Aladdin og síðar einnig hafið störf í Krónunni, þar sem hann var vel liðinn og fékk t.a.m. kveðjuteiti þegar hann þurfti að yfirgefa landið.
Þá hafi hann sömueiðis lært ensku og verið byrjaður að læra íslensku.
„Hvernig getur Útlendingastofnun tekið svona ákvörðun? Jújú, lögin segja eitt og lögin segja annað. Það má þó alltaf sýna hjarta og skilning,“ segir Anna og spyr:
„Hvar er minn réttur sem íslenskur ríkisborgari til að lifa með eiginmanni mínum í mínu eigin landi?“
Að lokum bendir hún á tvöfeldni í viðhorfum:
„Mjög oft gagnrýna vestræn ríki hvernig staðan er á Miðausturlöndum - að konur hafi ekki frelsi til að velja maka eða giftast þeim sem þær elska. En ég upplifi nákvæmlega það sama hér á Íslandi. Hvar eru mannréttindin, hvar er jafnréttið og frelsið til að stofna fjölskyldu í mínu eigin landi?“