Síðasta vél Play flogin af landi brott

Vélinni var lagt í stæði á Keflavíkurflugvelli eftir að flugfélagið …
Vélinni var lagt í stæði á Keflavíkurflugvelli eftir að flugfélagið féll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðasta flugvél merkt hinu fallna flugfélagi Play er flogin af landi brott og er nýlent í Ósló í Noregi. 

Vísir greindi fyrst frá en vélin lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli rétt eftir klukkan hálf eitt og lenti í Ósló rétt í þessu. 

Kínverska félagið Air CALC á flugvélina en Play var með leigusamning um tíu flugvélar, tvær þeirra voru í eigu Air CALC en hinar hjá hinu írsk-ameríska AerCap.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sagði á föstudag að vélin yrði ekki flutt úr landi fyrr en að félagið hefði gert upp skuldir sínar við lögveðhafa á grundvelli reglugerðar sem sett var nokkrum dögum eftir gjaldþrotið. 

„Airbus flugvél sem eftir varð á Keflavíkurflugvelli við rekstrarstöðvun og síðan gjaldþrot flugfélagsins Play síðasta mánudag hefur verið flogið úr landi. Eigandinn vélarinnar óskaði eftir brottfararleyfi sem Isavia varð við þar sem ekki var mögulegt að uppfylla skilyrði til stöðvunar samkvæmt loftferðalögum. Þrátt fyrir að vélin sé farin þá hvílir enn lögveð á henni samkvæmt sömu löggjöf,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert