Adam Árna finnst gaman að vera í alls konar brölti – að jaskast eins og slíkt er kallað í minni fjölskyldu. En til þess að svo megi verða þarf hann aðstoð og rétta tækið. Nú er það fengið og þar með eru okkur allir vegir færir og jafnvel ófærurnar líka,“ segir Jóna Katrín Hilmarsdóttir. Hún var á fallegum haustdegi austur á Þingvöllum með syni sínum.
Sá er Adam Árni Onnoy, sem er 12 ára, með fjölþætta fötlun og hefur mjög takmarkaða göngugetu. Þarf því að fara ferða sinna í hefðbundnum hjólastól en vildi lengra, meira og hærra. Þá voru góð ráð dýr en fundust þó. Vilji er allt sem þarf.
Þau Jóna Katrín og Adam Onnoy, foreldrar Adams Árna, lögðust í leit á netinu að hjólastól sem hæfði. Þann fundu þau hjá fyrirtækinu Extreme Motus sem er með starfsemi sína í Utah-ríki í Bandaríkjunum. Stóllinn, sem var sérsmíðaður vestra, er á lengdina og á þremur hjólum, með stórum blöðrudekkjum svo að hægt sé að ýta farartækinu yfir ójöfnur og um allar koppagrundir, eins og móðirin kemst að orði.
Þetta er hjólastóll engu líkur og stolt framleiðandans sem sendi fulltrúa sinn til Íslands til að koma gripnum til viðtakanda. Sá er Ryan Grassley, sem var með Jónu Katrínu og syninum á Þingvöllum í haustlitaferð þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti þau þar um síðustu helgi.
„Í fyrsta skipti á ævinni fékk Adam Árni tækifæri til að upplifa að fara um á Þingvöllum og að Gullfossi og Brúarfossi. Það var honum kleift af því að nú höfum við stól sem hægt er að keyra í alls konar færð; við getum farið þegar snjóar, rölt í fjöruna og gengið í sandi. Arkað um tún og móa, yfir kletta, hæðir og hóla,“ segir Jóna Katrín sem er skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni.
„Fyrir þau sem þurfa að nota hjólastól er flókið að fá tækifæri til að njóta alls kyns aðstæðna sem aðrir taka sem gefnum hlut. Að nú sé drengnum mínum slíkt mögulegt skapar ólýsanlega gleði og móðurhjartað er eiginlega að springa. Nú stefnum við í ævintýraleiðangur að finna staði og stundir til að upplifa spennandi nýjar aðstæður. Adam Árna finnst skemmtilegast þegar leiðin er illfær og nýi stóllinn hossast sem mest.“
Áður hefur Adam Árni meðal annars haft hjólavagn, sem foreldrarnir gáfu til sumarbúðanna í Reykjadal í Mosfellsbæ þegar sá gripur nýttist unga manninum ekki lengur. Nú dugar best hinn breiðdekkjaði hjólastóll, en slíkir fást í nokkrum stærðum. Hjá framleiðandanum í Utah er sömuleiðis í sífelldri þróun að gera stólana, sem eru léttir og gott að keyra, enn notendavænni.
Kostnaður við kaup á stólnum er að öllu leyti greiddur af foreldrunum en reglum samkvæmt greiða Sjúkratryggingar Íslands fyrir hjólastóla og hjálpartæki sem fólk þarf til nota í daglegu lífi en ekki tæki sem tengjast áhugamálum eða tómstundum.
Adam Árni býr á Selfossi með foreldrum sínum. Í heimabænum fær hann alla nauðsynlega þjónustu og þykir vel séð fyrir málum. „Drengurinn þarf aðstoð og stuðning við allar athafnir daglegs lífs. Hann er ómálga og tekst á við erfiða flogaveiki. Eftir því sem hann eldist og stækkar þá þyngist umönnunin, lífið verður einmanalegra og við því þarf að bregðast svo líf hans verði innihaldsríkt. Þar erum við foreldrarnir baklandið og höfum verið samstillt í því að gera allt sem við getum til að gera honum lífið skemmtilegra. Þar er útivera í öllum sínum fjölbreytileika áhugamál ofarlega á blaði,“ segir Jóna Katrín að síðustu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
