Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavíkurborg hafa „gefið frat“ í tilraun meirihlutans til að leysa leikskólavandann í borginni.
Þetta sagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á Sprengisandi á Bylgjunni þar sem hún tókst á við Hildi Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um þessi mál.
Ástæða umræðunnar er tillaga stýrihóps um breytingar á reglum í leikskólastarfi í Reykjavík.
Tillögurnar fela meðal annars í sér að foreldrar sem ekki nýta leikskóla yfir ákveðna frídaga (t.d. milli jóla og nýárs) fái einn mánuð niðurfelldan af leikskólagjöldum, en þeir sem nýta opnun þessa daga greiða 4.000 kr. fyrir hvern skráningardag.
Einnig er lagt til að breytt verði gjaldskrá og afsláttarflokkum: allir afslættir, nema systkina- og starfsmannaafsláttur, víki fyrir nýjum flokkum.
Þar má nefna 25% afslátt ef barn er ekki skráð eftir kl. 14 á föstudögum auk nýrra tekjutengdra afslátta fyrir efnaminni foreldra.
Markmiðið er að tryggja hámarksmönnun í leikskólum á virkum dögum, draga úr fáliðunaraðgerðum og skapa meiri fyrirsjáanleika í starfi og fyrir fjölskyldur.
Hildur sagði tillögurnar velta byrðum á vinnandi foreldra og nefndi mikilvægi þess að bæta aðstæður barnafólks sem og starfsmanna leiksólanna.
Líf sagði að með þessum tillögum sé einmitt verið að koma til móts við bæði starfsmenn og foreldra og benti á að fáliðun í leikskólastarfi sé mikið vandamál.
Hún benti jafnframt á að í nýjum kjarasamningum hafi yfirsést að 36 stunda vinnuvika og 40 til 42,5 klukkustunda dvalartími leikskólabarna á viku gangi ekki upp.
Líf sagði stýrihópinn, sem stendur að baki tillögunum, vera þverpólitískan og bætti við að tillögurnar séu ekki endanlegar.
Hún sagði tillögurnar hugsaðar til að búa til hvata fyrir barnafólk til að auka fyrirsjáanleika í leikskólastarfi.
„Við erum til dæmis með þá tillögu að ef þú skráir ekki barnið þitt í leikskóla á þessum svokölluðu skráningardögum í kringum frí eru gjöld í maí felld niður."
Hildur sagði of miklu púðri hafa verið eytt í að hnikra til gjaldskrá og að ekki hafi verið nógu vel fjallað um hvernig tillögurnar verði innleiddar.
Hún gerði einnig athugasemd við þá tillögu að fólk skrái börn í leikskóla fyrir dymbilviku í september.
„Ég held að fáir foreldrar viti hvernig álag mun deilast í dymbilvikunni að vori í september,“ sagði Hildur.
Líf sagði að dvalartími barna á leikskólum væri mjög langur miðað við vinnutíma starfsfólks sem veldur því að starfsfólk færir sig í önnur sveitarfélög í síauknum mæli.
Í lokin talaði Hildur um mikilvægi þess að fjölga daggæsluúrræðum sem yrðu millistig milli dagforeldrakerfisins og leikskólanna.
Þá benti hún á mikilvægi þess að fjölga sjálfstætt starfandi leikskólum.