Átti að standa skil á rúmum milljarði næsta dag

Losun Play á síðasta ári nam 165 þúsund tonnum.
Losun Play á síðasta ári nam 165 þúsund tonnum. mbl.is/Unnur Karen

Flugfélagið Play gerði ekki upp losunarheimildir, vegna losunar á síðasta ári, áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt heimildum mbl.is hefði það kostað félagið rúman milljarð að gera upp losunina.

Síðasti dagurinn sem félagið hafði til að skila inn gögnum til Umhverfisstofnunar vegna þessa var daginn eftir að félagið tilkynnti að það hefði hætt starfsemi, eða á þriðjudag.

Höfðu tíma til 30. september

Ísland er aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði og flugi.

Ber flugfélögum að skila upplýsingum um útblástur síðasta árs þann 30. mars og hafa félögin svo tíma fram til 30. september til að kaupa losunarheimildir og senda Umhverfisstofnun staðfestingu þess efnis.

Skila átti uppgjöri fyrir losun ársins 2024 í síðasta lagi 30. september, sem var daginn eftir að Play lýsti því yfir að fyrirtækið hefði hætt starfsemi.

Fá hluta af heimildunum endurgjaldslaust

Losun Play nam 165 þúsund tonnum á síðasta ári en greiða þarf fyrir eina losunarheimild á hvert tonn af koltvísýringi sem flugfélög losa.

Viðskipti um losunarheimildir fara fram á þar til gerðum markaði en meðalverð einnar heimildar var um 76 evrur undir lok september. Það jafngildir að losunarheimildir vegna heildarlosunar Play árið 2024 hefði kostað um 1,8 milljarða.

Það skal þó tekið fram að flugrekstraraðilar fá árlega úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum svo þeir þurfa ekki að greiða fyrir öll þau tonn sem þeir losa.

Á síðasta ári fékk Play úthlutað 44.214 endurgjaldslausum losunarheimildum fyrir árið 2023 þegar félagið losaði 130 þúsund tonn af koltvísýring. 

mbl.is hefur ekki upplýsingar um hvað Play fékk úthlutað mörgum endurgjaldslausum losunarheimildum í ár. 

Langhæsta sekt Umhverfisstofnunar

Árið 2019 lagði Umhverfisstofnun stjórnvaldssekt á þrotabú WOW air vegna vanrækslu á að standa skil á losunarheimildum árið áður.

Sektin nam tæpum 3,8 milljörðum og var hún langhæsta sekt sem Umhverfistofnun hefur gefið út.

Þess ber að geta að forsvarsmenn WOW air seldu losunarheimildir vegna útblásturs frá starfsemi félagsins skömmu áður en félagið fór í þrot. Andvirði sölunnar nam um 400 milljónum króna. 

Lítill hluti heimildanna var þó óseldur í félaginu við gjaldþrotaskiptin, eða sem nemur 516 losunarheimildum upp á um sex milljónir króna á gengi dagsins í dag.

Umhverfisstofnun vildi að þrotabúinu yrði gert að skila þeim heimildum, en bæði héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu því og Hæstiréttur féllst ekki á að taka málið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert