Dóra Björt útskýrir flutningana

Dóra Björt í ráðhúsinu í hverfi 101. Nú er hún …
Dóra Björt í ráðhúsinu í hverfi 101. Nú er hún flutt í hverfi 112 og unir sér vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Pírata í Reykjavík, flutti í Grafarvog til að lifa sjálfbærara lífi.

Í færslu á facebook segist Dóra Björt vera venjuleg manneskja sem þekkir skutlið af eigin raun og þá streitu og streð sem því fylgir.

Með því að flytja í Grafarvoginn og vera þannig meðal annars á svæði sem vel tengt er almenningssamgöngum hafi henni tekist að skipta nærri klukkustund tvisvar á dag með þreytt og buguð börn í bíl út fyrir afslappaðar strætóferðir og útsýnistúra um borgina, hljóðbækur, góða tónlist og að láta hugann reika.

„Maðurinn minn hjólar gjarnan þannig að hann er búinn að græða á þessu meiri hreyfingu. Fyrir okkur er þetta betra og hamingjuríkara líf og dregur úr streitunni,“ skrifar Dóra.

Fólk hafi val

Borgarfulltrúinn segir þau sem stýra borginni vilja hanna hverfin með það að leiðarljósi að veita fólki og fjölskyldum val um að nota bíl eða ekki.

Hönnun Keldnalands, sem enn er í mótun, gangi út á það og aðalmarkmiðið sé að öll heimili verði vel tengd við Borgarlínuna með nauðsynlegri nærþjónustu og atvinnumöguleikum sem og grænum svæðum í kring og öruggum gönguleiðum fyrir börn.

Dóra segir að oft sé talað um að borgarfulltrúar séu eingöngu lattelepjandi miðbæjarrottur sem séu alveg úr tengingu við úthverfin.

„Ég get með þessu staðfest að ég er stolt úthverfatútta í Grafarvogi og er svo heppin að búa í því dásamlega og fjölskylduvæna hverfi,“ skrifar Dóra á facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert