Enska ráðandi eftir nokkra áratugi að óbreyttu

Komandi kynslóðir gætu talað ensku sín á milli, í stað …
Komandi kynslóðir gætu talað ensku sín á milli, í stað íslensku, að óbreyttu. mbl.is/Karítas

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir það stórhættulegt lýðræðinu verði kennsla íslensku sem annars máls ekki aukin.

Í síðustu viku stofnaði Eiríkur undirskriftalista þar sem hann skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að stórhækka framlög til kennslu í íslensku sem önnurs máls í fjárlögum næsta árs.

Í morgun höfðu rúmlega 1.100 skrifað undir undirskriftalista Eiríks en í rökstuðningi með listanum vísaði hann meðal annars til niðurstaðna skýrslu OECD um stöðu innflytjenda hér á landi sem kom út fyrir ári.

Þar kom fram að íslensk stjórnvöld verji hlutfallslega mun minna í tungumálakennslu aðfluttra íbúa en nágrannaþjóðir.

Þá er hlutfall þeirra innflytjenda, sem tala tungumál landsins sem þeir búa í, lægst á Íslandi af öllum OECD-ríkjunum.

Graf/mbl.is

Ráðafólk átti sig ekki á stöðunni 

Eiríkur skilaði sömuleiðis inn athugasemdum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í síðasta mánuði þar sem hann gagnrýndi niðurskurð til málaflokksins. Framlög til íslenskukennslunnar verða nú um 360 milljónir í stað 564 milljóna í fjárlögum síðasta árs.

Spurður hvort hann telji vilja meðal ráðamanna til að bæta úr stöðunni kveðst hann ekki viss.

„Eins og ég hef oft sagt þá finnst mér að ráðafólk átti sig ekki alveg á málinu. Að mínu mati þá snýst þetta um það hvers konar samfélag við viljum hafa í framtíðinni,“ segir hann.

„Hvort við viljum hafa samfélag þar sem íslenskan er burðarás og tengir okkur saman, eða hvort við viljum hafa samfélag sem er skipt eftir tungumálum þannig að það er bara hluti íbúa sem talar íslensku og annar hluti talar ekki íslensku og safnast þá kannski saman í einhverjum samfélögum sem einangrast frá öðrum. Það er náttúrlega bara stórhættulegt fyrir lýðræðið í landinu.“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veikir íslenskuna gífurlega

Þá segir hann annan meginflöt í málinu vera spurninguna um hvernig við sem samfélag viljum sjá framtíð íslenskunnar.

„Það er alveg raunhæfur möguleiki að innan fárra áratuga verði íslenska ekki lengur aðalsamskiptamálið hérna í atvinnulífinu. Mér finnst í raun og veru bara blasa við að það hlýtur að gerast, vegna þess að því hefur verið spáð að um miðja öldina verði helmingur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna,“ segir Eiríkur.

„Ef það fólk kann ekki íslensku þá er augljóst að samskiptamál innfæddra við þetta fólk verður enska og samskiptamál milli mismunandi hópa innflytjenda verður líka enska. Það leiðir til þess að íslenskan missir þetta mikilvæga svið og það veikir hana gífurlega mikið.“

Hvorki góð íslenska né enska 

Í þessu samhengi bendir Eiríkur á að fæstir sem hingað flytja hafi ensku sem móðurmál og að margir læri hana jafnvel á Íslandi.

„Það lærir ekkert góða ensku. Fólk lærir hérna lélega, ófullkomna ensku, en hún dugir.“

Hann segir að aftur á móti geri Íslendingar svo miklar kröfur til íslensku. „Við köllum ekkert íslensku nema hún sé nokkurn veginn rétt. Aftur á móti sættum við okkur við ófullkomna og lélega ensku.“

Í þessu samhengi telur Eiríkur þurfa viðhorfsbreytingu í samfélaginu samhliða auknum fjárframlögum til málflokksins.

„Annars vegar verðum við að gera innflytjendum kleift að læra málið, og til þess þarf fjármagn, og hins vegar verðum við að gera þeim kleift að nota það.“

Graf/mbl.is

Ekki raunsætt að eyða álíka miklu  

Í áðurnefndri skýrslu OECD um stöðu íslensku meðal innflytjenda kom fram að Ísland ver hlutfallslega margfalt minna í tungumálakennslu fyrir innflytjendur en nágrannaþjóðir okkar.

Aðspurður segir Eiríkur að honum þætti eðlilegt að íslensk stjórnvöld myndu margfalda sitt framlag til að bregðast við veikri stöðu tungumálsins meðal aðfluttra íbúa en að það sé hins vegar ekki raunsætt.

Fyrsta skrefið væri hins vegar að hætta við áformaðan niðurskurð til málaflokksins.

„Ég veit vel að stjórnvöld myndu segja að þetta sé ekki niðurskurður vegna þess að þetta voru framlög sem voru sett inn í fjárlögin í fyrra og merkt tímabundin, og það sem er að gerast núna er sem sagt bara að þeim er ekki haldið áfram,“ segir Eiríkur og tekur fram að við því hafi hann tvennt að segja.

„Í fyrsta lagi að það er náttúrlega bara orðhengilsháttur, ef framlögin eiga að vera lægri næsta ár heldur en á þessu ári, þá er það náttúrlega bara niðurskurður í almennu máli. Þar fyrir utan, þá er auðvitað galið að setja inn einhver tímabundin framlög til eins árs til íslenskukennslu þegar alveg vitað er að það tekur mörg ár að læra tungumál almennilega.“

Tekin í bólinu með þetta eins og annað 

En er nóg að auka framlög til málaflokksins, þarf ekki að endurskoða hvernig staðið er að kennslunni?

„Jú. Það er náttúrlega meginatriðið. Það vantar raunar alla umgjörð í kringum þetta. Við höfum náttúrlega, eins og í svo mörgum tilfellum, bara verið tekin í bólinu með þetta,“ segir Eiríkur.

„Fólki af erlendum uppruna hefur fjölgað svo ört og við höfum ekkert verið undir það búin, hvorki á þessu sviði né öðrum. Það vantar kennsluefni, það vantar menntaða kennara og bara allan strúktúr í kringum þetta. Þannig að það er náttúrlega það sem er meginatriði, að móta einhverja skynsamlega stefnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert