Faðir eins barnanna segir borgina hafa brugðist

Faðirinn telur Reykjavíkurborg hafa brugðist börnum og foreldrum í málinu.
Faðirinn telur Reykjavíkurborg hafa brugðist börnum og foreldrum í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Faðir eins þeirra barna, sem starfsmaður á leikskólanum Múlaborg er grunaður um að hafa brotið á, segir Reykjavíkurborg gjörsamlega hafa brugðist í málinu og að mannekla og skipulagsleysi í leikskólamálum hafi skapað rými fyrir starfsmanninn til að brjóta á börnum.

Hann kallar eftir því að stjórnendur innan borgarinnar taki raunverulega ábyrgð í málinu.

„Auðvitað ber gerandinn ábyrgð á verknaðinum en Reykjavíkurborg ber hundrað prósent ábyrgð á að veita honum rými og umhverfi til að brjóta á börnunum,“ segir faðirinn.

Eðli máls samkvæmt kemur hann ekki fram undir nafni.

Hafði fjölda tækifæra til að brjóta á börnunum 

Fyrir helgi var greint frá því að starfsmaður á Múlaborg væri grunaður um að hafa brotið á fleiri en tíu börnum.

Starfsmaðurinn, sem enn situr í gæsluvarðhaldi, var handtekinn um miðjan ágúst grunaður um kynferðisbrot gegn nemanda á leikskólanum.

Upphaflega var talið að um einstakt atvik væri að ræða og var foreldrum tjáð það á fundi nokkrum dögum eftir að málið kom upp. Faðirinn sem mbl.is ræddi við gagnrýnir það harðlega.

„Á þessum fundi segja þeir okkur að þeir telji að þetta sé einstakt atvik,“ segir faðirinn og bætir við að það hafi strax komið honum spánskt fyrir sjónir þar sem starfsmaðurinn hafi starfað á leikskólanum í tvö ár og þar með haft fjölda tækifæra til að brjóta á öðrum börnum.

Hann hafi meðal annars ítrekað varið tíma einn með börnum á deildinni inni á klósetti og skipt á þeim.

Frá leikskólanum Múlaborg.
Frá leikskólanum Múlaborg. mbl.is/Eyþór

Gekkst við brotinu

Þá tilkynnti lögregla að hún hygðist ekki ræða við öll börn á leikskólanum heldur tæki hún aðeins stutt könnunarviðtöl við börn á deildinni þar sem starfsmaðurinn hafði síðast starfað.

Foreldrar voru sendir heim með leiðbeiningar um hvernig ætti að ræða þessi mál við börn sín en faðirinn segir að í þeim samtölum hafi fljótlega komið í ljós að brotaþolar væru sennilega mun fleiri en áður var talið.

Í samtali við hans eigið barn komu til að mynda upp vísbendingar um að starfsmaðurinn hefði brotið á því. Eftir að hafa tilkynnt lögreglu það var foreldrunum sagt að starfsmaðurinn hefði gengist við að hafa brotið á barni þeirra.

Vegna rannsóknarhagsmuna fá foreldrarnir ekki að vita meira um brotið fyrr en búið er að gefa út ákæru á hendur manninum.

Spurður hvort foreldrarnir viti á hvaða tímabili brotin eigi að hafa átt sér stað segir faðirinn foreldra heldur ekki hafa upplýsingar um það.

Vont að fá upplýsingar í gegnum fjölmiðla

Hann segist skilja vel að ekki sé hægt að veita þessar upplýsingar sem stendur, til að spilla ekki rannsókninni, en segir vont að fá fréttir af málinu í gegnum fjölmiðla.

Í gegnum samtöl sín við aðra foreldra hafi hann og konan hans vitað að börnin sem maðurinn hafði brotið á væru nokkur, en það var fyrst í fjölmiðlum að þau fréttu að þau væru sennilega fleiri en tíu.

Þar áður fréttu þau sömuleiðis fyrst í gegnum fjölmiðla að starfsmaðurinn hefði verið handtekinn og að um kynferðisbrot efði verið að ræða.

„Það er náttúrlega alveg fyrir neðan allar hellur að vera að frétta svona hluti fyrst í fjölmiðlum.“

Fyrir helgi var greint frá því að starfsmaður á Múlaborg …
Fyrir helgi var greint frá því að starfsmaður á Múlaborg væri grunaður um að hafa brotið á fleiri en 10 börnum. mbl.is/Eyþór

Borgaryfirvöld taki ábyrgð

Að lokum segir faðirinn að hann telji Reykjavíkurborg hafa brugðist börnum og foreldrum í málinu og að sú staðreynd að starfsmaðurinn hafi fengið færi á að brjóta gegn þessum fjölda barna sýni fram á mikinn ólestur í leikskólamálum.

Hann gagnrýnir til að mynda að þrjár nýjar deildir hafi verið opnaðar á Múlaborg fyrir ári án þess að starfsmenn hafi verið til staðar til að manna þær.

„Auðvitað ber gerandinn ábyrgð á verknaðinum en Reykjavíkurborg ber hundrað prósent ábyrgð á að veita honum rými og umhverfi til að brjóta á börnunum,“ segir faðirinn og bætir við að hann telji að ráðamenn og stjórnendur innan borgarinnar eigi að bera þessa ábyrgð, ekki starfsfólk leikskólans.

Í þessu samhengi bendir hann á annað mál sem upp kom í síðustu viku þar sem starfsmaður í öðrum leikskóla í borginni, Brákarborg, er grunaður um brot gegn barni.

„Ef þetta Múlaborgarmál var ekki nóg til þess að einhver tæki ábyrgð þá ætti þetta að vera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert