Fylgið fellur af flokkunum í Suðurkjördæmi

Fylgið minnkar hjá tveimur stjórnarflokkum í Suðurkjördæmi.
Fylgið minnkar hjá tveimur stjórnarflokkum í Suðurkjördæmi. Samsett mynd/Eggert/Karítas

Flokkur fólksins, sem fékk mesta fylgið í Suðurkjördæmi í síðustu þingkosningum, tapar einum þingmanni í Suðurkjördæmi og oddviti Viðreisnar mælist utan þings. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, mælist einnig utan þings þó að Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar, mælist inni á Alþingi.  

Víkurfréttir hafa fengið niðurbrotið á fylgi flokkanna í Suðurkjördæmi úr könnun Gallup sem RÚV greindi frá í byrjun mánaðar.

Flokkur fólksins fékk 20% fylgi í síðustu kosningum undir forystu Ásthildar Lóu Þórsdóttur og var með mesta fylgið í Suðurkjördæmi. Nú mælist flokkurinn hins vegar aðeins með 13,8% fylgi og Sigurður Helgi Pálmason, þingmaður Flokks fólksins, næði ekki kjöri inn á Alþingi.

Guðbrandur mælist utan þings

Viðreisn mælist aðeins með 8,2% fylgi og myndi Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi, því falla af þingi.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bæta talsvert við sig í Suðurkjördæmi en Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,7% fylgi og Samfylkingin 25,6% fylgi. Báðir flokkar myndu því bæta við sig einum þingmanni.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt mesta fylgi á landsvísu í Suðurkjördæmi á sama tíma og Samfylkingin mælist með sitt minnsta fylgi á landsvísu í Suðurkjördæmi.

Sigurður mælist utan þings

Miðflokkurinn mælist með 13,8% fylgi og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, heldur sæti sínu því örugglega.

Framsókn mælist með 9,4% og fengi því einn mann kjörinn. Sigurður Ingi mælist því ekki inni á þingi en í síðustu kosningum komst hann á þing sem uppbótarþingmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert