Nýtt félag, Gosfélagið ehf., hefur tekið yfir sölu og dreifingu á Klaka.
Fram kemur í tilkynningu að fyrirtækið Rolf Johansen & Company hafi hafið framleiðslu á Klaka árið 2013 og hafi fram til þessa selt og dreift drykkjunum. Gosfélagið tók hins vegar við sölunni og dreifingunni 1. október.
„Það eru þeir Brynjar Freyr Valsteinsson, sem er framkvæmdastjóri Gosfélagsins, og Kristján Elvar Guðlaugsson, sem er fjármálastjóri félagsins, sem standa að baki rekstri Gosfélagsins en þeir þekkja dagvörumarkaðinn mjög vel og hafa yfir 20 ára reynslu á því sviði,“ segir í tilkynningu.
„Gosfélagið er nýr íslenskur framleiðandi sem byggir á góðum grunni. Eins og er eru aðeins tvö fyrirtæki á Íslandi sem framleiða íslenska gosdrykki og nú bætist Gosfélagið við þá flóru,“ er haft eftir Brynjari í tilkynningunni.
Þá kemur fram að Gosfélagið ætli sér stóra hluti á þessum markaði. „Til að byrja með tökum við yfir sölu og dreifingu á Klaka en svo stefnum við á að setja upp okkar eigin framleiðslu á næsta ári.“
Loks segir að Gosfélagið njóti stuðnings fjárfestanna Rolf Johansen & Co, sem Ásgeir Johansen leiði, og Álfakórs, sem Loftur Bjarni Gíslason leiði.
