Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, biðst afsökunar á ummælum sem hann lét falla um Grindavík í þættinum Vikan með Gísla Marteini á RÚV á föstudaginn.
Ummælin vöktu hörð viðbrögð meðal sumra Grindvíkinga sem töldu þau niðrandi og vanvirðandi í garð bæjarbúa.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Jón að það hafi aldrei verið ætlun sín að gera lítið úr fólki í Grindavík, heldur þvert á móti. Hann segist hafa viljað sýna samkennd og skilning á því áfalli sem margir bæjarbúar hafa upplifað í kjölfar jarðhræringa og rýmingar bæjarins.
„Þessi hjón sem ég vísa til [í þættinum] hitti ég ásamt hópi af Grindvíkingum síðasta sumar. Ég hitti þau fyrir utan bensínstöðina á Blönduósi. Maðurinn lýsti þessu svona fyrir mér, hvernig húsið þeirra hefði færst til. Það var augljóst að þetta hafði haft mikil áhrif á hann. Og hann sagði að hann myndi aldrei vilja fara aftur heim til Grindavíkur. Ég var ekki að búa þetta til,“ skrifar Jón og vísar til hjóna sem hann hafi hitt síðasta sumar og þau lýst áhrifum hamfaranna á sig og heimili sitt í Grindavík.
Þingmaðurinn rifjar jafnframt upp tengsl sín við Grindavík, meðal annars störf í Svartsengi á yngri árum, og segist bera hlýjar tilfinningar til bæjarins og íbúa hans.
„Fyrirgefið mér kæru vinir ef ég hef sært ykkur, það var ekki ætlunin. Ég ber mikla virðingu fyrir dirfsku, æðruleysi og þrautseigju Grindvíkinga og hef fulla trú á því að við náum saman, með tímanum, að endurreisa bæinn og vinna okkur út úr þessu, ekki bara efnahagslega heldur tilfinningalega líka. Guð blessi Grindavík,“ skrifar Jón að lokum í færslunni.