Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kveðst vera þeirrar skoðunar að það þurfi að byggja meira. Hún segir að stjórnvöld muni eiga samtal við sveitarfélögin þegar þau fara í að kynna húsnæðispakka „því að við vitum vel að ríkið getur ekki farið í húsnæðisaðgerðir án þess að gera það í samtali við sveitarfélögin“.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði um afstöðu forsætisráðherra til lóðaframboðs og svæðisskipulags.
Guðrún benti á að nýverið hefði komið skýrt fram í svari Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, að Flokkur fólksins sætti sig ekki við að eitt sveitarfélag gæti með neitunarvaldi stöðvað uppbyggingu annarra. Það væri í takt við áherslur Flokks fólksins um aukið lóðaframboð og að brjóta nýtt land þegar þörf krefði.
„Í kjölfar fyrirspurnatímans ritaði hins vegar háttvirtur þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, grein í Morgunblaðið þar sem hann heldur því fram að núverandi kerfi standist tímans tönn, að hægt sé að byggja áfram innan óbreyttra vaxtarmarka og að tölur á blaði um tugi þúsunda íbúða innan núverandi marka sýni næga möguleika. En við vitum að fólk býr hvorki í skýrslum né skipulagstillögum og tölur á blaði hafa ekki orðið að heimilum og verða ekki nema ferlið breytist,“ sagði Guðrún.
Hún spurði Kristrúnu hvar hún stæði í þessu máli.
„Mun hún styðja fyrirliggjandi frumvarp háttvirts þingmanns Hildar Sverrisdóttur sem hefur það markmið að stórauka lóðaframboð og brjóta nýtt land með því að afnema neitunarvald á vaxtarmörkum sveitarfélaga? Eða tekur hæstvirtur forsætisráðherra undir nálgun háttvirts þingmanns Dags B. Eggertssonar um að halda áfram á grundvelli óbreyttra vaxtarmarka? Ef svo er, hvaða pólitísku og stjórnsýslulegu skref ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að taka svo að sú afstaða skili sér í betra lóðaframboði og fleiri íbúðum fyrir ungt fólk og fjölskyldur á næstu árum?“
Kristrún sagði að þegar núverandi svæðisskipulag hefði verið gert þá hefðu verið ákveðnar forsendur undir um fólksfjölgun.
„Við vitum vel í þessu landi að það hafa orðið miklar breytingar þegar kemur að þeim spám. Það hefur eiginlega hvergi í þeim löndum sem við horfum á í kringum okkur orðið jafn mikil fólksfjölgun hér á skömmum tíma og þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt að það sé rætt hvort það eigi að gera einhvers konar breytingar þegar nýjar forsendur koma inn í myndina. Þannig að ég ætla ekkert að setja mig upp á móti einu eða öðru í þessu samhengi. Við getum ekkert útilokað að það verði gerðar breytingar á svæðisskipulaginu en það þarf þá að setjast niður og ákveða í sameiningu meðal þessara sveitarfélaga hvort það eigi að gera það og það er ekki mitt að ákveða það í þessum stól Alþingis,“ sagði forsætisráðherra.
„Ég vil hins vegar segja að ég er almennt á þeirri skoðun að það þurfi að byggja meira. Það liggur alveg fyrir að það hefur verið ákveðinn skortur, en sérstaklega á ákveðnum tegundum íbúðarhúsnæðis, hér á höfuðborgarsvæðinu. Hvort sem það er gert innan vaxtarmarka eða utan þá liggur alveg fyrir að það þarf að brjóta nýtt land enda er fjöldinn allur af svæðum innan vaxtarmarkanna þar sem þarf líka að brjóta nýtt land og á enn þá eftir að gera þannig að við höfum enn þá svigrúm innan vaxtarmarka. En síðan þurfum við bara að sjá til hvort það er nóg og hlusta á sveitarfélögin,“ bætti Kristrún við.
Guðrún sagði að ráðherra hefði í svari sínu forðast að taka skýra afstöðu til málsins.
„Heimilin hafa ekki efni á óvissu í húsnæðismálum. Fram hefur komið að Flokkur fólksins hafnar því að eitt sveitarfélag geti í raun stöðvað uppbyggingu annarra en á sama tíma fullyrðir þingmaður samstarfsflokksins í Samfylkingunni að óbreytt vaxtarmörk dugi. Þetta ósamræmi þarf að útskýra,“ spurði Guðrún.
„Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu, eins og forsætisráðherra nefndi hér, hefur farið fram úr öllum forsendum svæðisskipulaga áranna 2015–2040 og aukning íbúa um 70.000 verður hraðari en gert var ráð fyrir. Er hæstv. forsætisráðherra sammála eða ósammála því að þessi hraða þróun, sem er í raun alger forsendubrestur fyrir skipulaginu, gefi tilefni til að yfirfara vaxtarmörk sveitarfélaga með heildstæðum hætti.“
Kristrún áréttaði í seinna svari sínu að allar tillögur yrðu skoðaðar og ekkert yrði útilokað.
„Nú þekki ég ekki bakgrunn allra mála og umræðu um vaxtarmörkin en mér skilst að ef eitthvert sveitarfélag hafi beitt neitunarvaldi þá hafi það verið sveitarfélag sem hafi verið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma eða núverandi. Það breytir því ekki að þetta er samtal sem þarf að taka við sveitarfélögin. Þetta er þeirra að ákveða í sameiningu. Við erum ekki komin á þann stað, a.m.k. í ríkisstjórninni, að fara að beita okkur gegn því eða segja sveitarfélögum hvað þau eigi að gera á þessu svæði,“ sagði ráðherra.
Hún bætti við að stjórnvöld væru að fara eiga samtöl við sveitarfélögin í tengslum við húsnæðismál. Það myndi gerast núna á næstu vikum þegar stjórnvöld fara í að kynna húsnæðispakka „þar sem við reynum að auka samtalið og samstarf á milli sveitarfélaga og ríkisins af því að við vitum vel að ríkið getur ekki farið í húsnæðisaðgerðir án þess að gera það í samtali við sveitarfélögin.“