Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að hún hafi áhyggjur af því og það sé engin töfralausn á því hvernig stjórnvöld leysa hátt raungengi. Ríkisstjórnin sé hins vegar að gera það sem hún hafi svigrúm til að gera, sem sé að ná tökum á ríkisfjármálunum.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar spurði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, forsætisráðherra út í aðgerðir stjórnvalda vegna uppsagna í þjóðfélaginu og vaxtaákvörðun Seðlabankans.
Hann benti á að þrátt fyrir að staðan í ríkisfjármálunum væri býsna góð þá hefðu óveðurský hrannast upp, eða að minnsta kosti áskoranir.
„Annar ársfjórðungur var að mati Hagstofunnar með samdrátt, fall Play, uppsagnir allra starfsmanna, eða nær allra, á Bakka við Húsavík og síðan, væntanlega vegna vaxandi eða þrálátrar verðbólgu og hárra vaxta, höfum við séð fleiri og fleiri missa atvinnuna. Atvinnuleysi er að hækka. Við höfum líka séð að raunverð á íbúðum fer lækkandi, sem getur verið jákvætt en það getur líka verið ógnvekjandi fyrir þá sem eru hugsanlega að fara að kaupa.
Mig langar því að spyrja hæstvirta forsætisráðherra hvaða væntingar hún hefur til vaxtaákvörðunar Seðlabankans núna á miðvikudaginn. Og til hvaða mótvægisaðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa, til að mynda vegna stöðunnar á Bakka við Húsavík, sem er grafalvarleg í ekki stærra samfélagi? Eða þá vegna áhrifa á ferðaþjónustuna þegar við erum að fara inn í veturinn? Kemur til greina til að mynda að fara í markaðsstarf til að tryggja að það verði ekki svona mikið fall í þennan tíma, á þessum erfiða tíma þegar atvinnuleysi fer vaxandi og við virðumst þurfa að búa við áframhaldandi háa verðbólgu og háa vexti?“ spurði Sigurður Ingi.
Kristrún tók fram í fyrri ræðu sinni að hún hefði fyrst og fremst áhyggjur af því starfsfólki sem missti vinnuna hjá Play í liðinni viku.
Þar væru það kerfin, eins og velferðarkerfið sem hefði verið byggt upp, sem skiptu miklu máli, bæði Ábyrgðasjóður launa og Atvinnuleysistryggingasjóður.
„Við höfum verið í ákveðnu ójafnvægi í hagkerfinu. Það eru margir mælikvarðar þar sem við getum litið til þess, eins og bara sú staða sem við höfum verið í í talsvert langan tíma að það er mjög hátt raungengi hér á landi sem veldur fjöldanum öllum af útflutningsgreinum ákveðnum vandkvæðum. Ég hef sjálf áhyggjur af því og það er engin töfralausn á því hvernig við leysum hátt raungengi. Ríkisstjórnin er hins vegar að gera það sem hún hefur svigrúm til að gera, sem er að ná tökum á ríkisfjármálunum,“ sagði ráðherra.
Hún bætti við að stjórnvöld hefðu með virkum hætti tekið þátt í að reyna að styðja við þá stöðu sem upp væri komin á Bakka. Þar hefði starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins unnið þétt með hagsmunaaðilum á svæðinu.
„Það er verið að leggja lokahönd á skýrslu sem verður skilað þar sem er verið að skoða málið á breiðum grunni, m.a. í samhengi við uppbyggingu orkukerfisins. Ég get greint frá því að þessi hópur hefur verið t.d. í beinu samstarfi og samtali við sex áhugasama fjárfesta sem hafa áhuga á atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi, því að við þurfum líka að hugsa áfram til lengri tíma um breiða atvinnusköpun á svæðinu,“ sagði Kristrún.
Sigurður Ingi sagðist vera þeirrar skoðunar að fjárlögin endurspegluðu of lítið aðhald og of hröð útgjöld og það væri verið að senda röng skilaboð vegna væntinga með því að hækka krónutölur umfram það sem Hagstofan spáði um verðbólgu næsta árs.
„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er bæði erfitt að eiga við raungengi og ná niður verðbólgu. Ein leið til þess er að ná samtali við alla aðila og þess vegna langar mig að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra, þar sem til er vettvangur sem heitir þjóðhagsráð þar sem allir aðilar vinnumarkaðarins, Seðlabankinn og sveitarfélögin sitja: Hversu oft hefur forsætisráðherra boðað til slíks fundar í því ráði til að reyna að horfa á stóru myndina, hvernig hægt er að ná niður verðbólgunni og vöxtunum? Eins hversu oft það hefur verið gert frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum,“ spurði Sigurður Ingi.
Kristún sagði að ríkisstjórnin hefði strax í haust sagt að ef hún þyrfti að gera meira hraðar þá myndi hún gera meira hraðar.
„Og það er það sem við erum að gera. Við skiluðum fjárlögum núna í haust með 15 milljarða halla — 15 milljarða, einn fimm. Við erum býsna nálægt því að ná hreinni afkomu en við erum að leggja lokahönd á húsnæðispakka og efnahagspakka vegna þess að við erum tilbúin að bregðast við og við erum sannarlega tilbúin að taka erfiðar ákvarðanir. Það er annars vegar talað um of lítið aðhald og svo er talað um eftirgjöf í tekjum í krónutölunum. Þetta þarf að fara saman og það liggur alveg fyrir að ekkert sem þarf að gera verður auðvelt,“ sagði hún.
Hvað þjóðhagsráð varðar þá sagði Kristrún að það hefði fundað fyrir viku síðan þar sem farið hefði verið yfir stöðuna í efnahagsmálunum.
„Við funduðum líka í vor og það er á dagskrá að boða til fundar aftur núna í nóvember. Mér skilst að þetta sé bara í takt við það sem áður hefur verið, svona tveir til þrír fundir á ári. Ég er reyndar, af því að ég sé að háttvirtur þingmaður er að gretta sig, með þá tölu að 26 fundir hafi verið haldnir síðan 2016 eða 2017 og það er nú svona í kringum tveir til þrír fundir á ári. Þannig að við erum í ágætu meðaltali. En betur má ef duga skal og það er sjálfsagt að funda oftar ef fólk telur það hjálpa,“ sagði ráðherra að lokum.