Læknafélagið skorar á heilbrigðisráðherra

Þrjár ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum.
Þrjár ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum. Ljósmynd/Colourbox

Ályktanir til stjórnvalda um nýtt greiðsluþátttökukerfi, kortlagningu heilbrigðiskerfisins og um eitt tölvukerfi fyrir blóðprufubeiðnir og svör voru samþykktar á aðalfundi Læknafélags Íslands sem var haldinn í Stykkishólmi í síðustu viku.

Á fundinum var Steinunn Þórðardóttir endurkjörin formaður félagsins til næstu tveggja ára.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Getur haft hamlandi áhrif

Í ályktuninni um nýtt greiðsluþátttökukerfi er skorað á heilbrigðisráðherra að breyta greiðsluþátttökukerfum í sjúkra- og lyfjakostnaði. Bætti kerfi skuli taka gildi innan tveggja ára.

„Núverandi kerfi geta haft hamlandi áhrif á komur einstaklinga til læknis sem og kaup þeirra á lyfjum. Þetta á sérstaklega við um yngra fólk og tekjulægri einstaklinga. Greiðsluþátttökukerfi eiga ekki að hindra aðgang að læknisþjónustu eða lyfjum,” segir í ályktuninni, að því er kemur fram í tilkynningu.

Alma Möller heilbrigðisráðherra.
Alma Möller heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eyþór

Skortur á heildarsýn

Í ályktuninni um kortlagningu heilbrigðiskerfisins kemur fram að á undanförnum árum hafi ítrekað verið bent á að heildarsýn skorti í íslenska heilbrigðiskerfinu. Skorti bæði yfirsýn yfir þjónustuna sem er í boði og hvernig hún er skipulögð og uppbyggð.

Skorað er á heilbrigðisráðherra „að ljúka sem fyrst ítarlegri kortlagningu á heilbrigðiskerfinu í samvinnu við LÍ og aðra hagaðila. Slík kortlagning myndi gefa skýra mynd af allri heilbrigðisþjónustu hér á landi, þar á meðal starfseiningum, mannafla, framleiðni og öðrum lykilþáttum og þannig skapa traustan grunn fyrir markvissa stefnumótun, verkaskiptingu og úrbætur í þjónustu til framtíðar.”

Ljósmynd/Colourbox

Niðurstöður geti farið forgörðum

Í ályktun um eitt tölvukerfi fyrir blóðprufubeiðnir og svör er skorað á heilbrigðisyfirvöld að setja á laggirnar innan árs eitt tölvukerfi sem tekur við blóðprufubeiðnum og sýnir niðurstöður, hvar sem prufurnar eru teknar.

Nú séu beiðnir og niðurstöður í ólíkum kerfum. Slíkt stuðli að óskilvirkni, bjóði upp á að blóðprufuniðurstöður fari forgörðum og geti ógnað öryggi sjúklinga. Læknafélagið lýsir sig reiðubúið til samvinnu við stjórnvöld um útfærslu á þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert