Óboðinn gestur komst inn í húsnæði Alþingis aðfaranótt sunnudags. Þetta staðfestir Sverrir Jónsson, skrifstofustjóri Alþingis.
Í skriflegu svari til mbl.is segir Sverrir manninn hafa verið friðsamlegan og ekki valdið skemmdum. Þá hafi hann verið fjarlægður í fylgd lögreglu.
Atvikið sé enn til skoðunar og ekki sé hægt að fara nánar í málavexti á þessu stigi málsins. Öryggisbresturinn sé litinn mjög alvarlegum augum og að skrifstofa Alþingis muni vinna að eftirfylgni málsins í nánu samráði við lögreglu.
