Ráðist var á mann með hnífi og honum veittir stunguáverkar í hverfi 104 í gærkvöld eða í nótt. Maðurinn var ekki alvarlega slasaður eftir árásina en hann var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar og var vistaður í fangaklefa.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 67 mál er skráð hjá lögreglunni á tímabilinu og í morgunsárið gista fjórir í fangageymslum.
Hópur manna réðst á einn með höggum og spörkum í miðbænum í gærkvöld eða í nótt og að því loknu hlupu þeir á brott. Árásarþoli var aumur eftir árásina en ekki slasaður.
Maður var handtekinn í miðbænum og hann vistaður í fangaklefa vegna húsbrots og eignaspjalla.
Ökumaður sem reyndist undir áhrifum áfengis varð valdur af umferðaróhappi í Kópavogi. Ökumaðurinn réðst á vegfaranda sem reyndi að varna því að hann færi af vettvangi. Hann var vistaður í fangaklefa.

