„Búvörusamningar síðustu ára hafa ekki verið fjármagnaðir sem vera skyldi. Greiðslur síðustu ára hafa ekki verið uppfærðar samkvæmt verðlagi og þar skeikar milljörðum. Slíkt segir nokkuð um hvernig bregðast skal við bæði í núinu og til framtíðar litið,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands (BÍ), í samtali við Morgunblaðið.
Minnt er á hagsmuni bænda í umsögn þeirri um frumvarp til fjárlaga næsta árs sem BÍ hefur sent Alþingi. Þar segir að starfsumhverfi íslensks landbúnaðar sé beintengt búvörusamningum og svo hafi verið í áratugi. Samningar séu gerðir á grundvelli búvörulaga um skyldur stjórnvalda gagnvart íslenskum landbúnaði og eins séu kröfur til bænda um að tryggja nægt framboð landbúnaðarvara. Augljóst sé að slíkt gerist ekki nema afkoma bænda sé sambærileg því sem er meðal annarra starfsstétta sem jafnsettar mega teljast. Margrét Ágústa segir að samkvæmt ákvæðum gildandi búvörusamninga skuli árleg framlög samninga miðast við forsendur fjárlaga fyrir árið 2016, en taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu.
„Ef þróun verðlags er önnur en forsendur fjárlaga á hverju ári skal mismunur leiðréttur í fjárlögum næsta árs. Þetta kemur skýrt fram í ákvæðum samninganna en slíkt hefur ekki verið gert. Nú telst okkur til að það vanti inn í kerfið um 3,7 milljarða króna vegna áranna 2017-2024,“ segir framkvæmdastjóri BÍ.
Vinna er nú hafin meðal fulltrúa bænda og stjórnvalda um gerð næstu samninga um starfsskilyrði landbúnaðarins, sem taka eiga gildi í byrjun árs 2027.
„Við köllum eftir samtali núna við fjárlaganefnd. Núgildandi kerfi er að miklu leyti ágætt, en það þarf meiri fjármuni í pottinn til að það virki sem skyldi. Einnig þarf eftirfylgnin með íþyngjandi Evrópuregluverki sem kemur í gegnum EES-samninginn að vera betur háttað af hálfu stjórnvalda. Oft eru til staðar heimildir til að létta á eða rýmka íþyngjandi skilyrði en alltof algengt að þær séu ekki nýttar, hvað sem því veldur,“ segir Margrét Ágústa og að síðustu:
„Tollverndin er annað mikilvægt mál og ein mikilvægasta grunnforsenda starfsskilyrða greinarinnar. Það að hún virki ekki sem skyldi leiðir til þess að markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu minnkar og það veikir m.a. fæðuöryggi okkar hér á Íslandi, og það á þeim óvissutímum sem við lifum á nú. Þá er staðreynd að flestöll ríki heims eru að gefa í hvað varðar innlenda framleiðslu enda ekki hægt að treysta á innflutning til lengri tíma litið. Nú mun virkilega reyna á stjórnvöld að tryggja og bæta starfsskilyrði landbúnaðarins líkt og þeim ber lögum samkvæmt að gera.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
