Eigandi ferðaþjónustufyrirtækjanna Glacier Ventures og Glacier Heli hefur tilkynnt að félag í hans eigu, Glacier Airline, hyggist bjóða upp á reglulegar flugferðir frá Íslandi til nokkurra áfangastaða í Evrópu.
Eigandinn heitir Usman Mehmood og er frá Pakistan.
Sett hefur verið upp vefsíða undir nafninu Glacier Airlines, en enn sem komið er er ekki hægt að kaupa flugmiða þar.
Þó virðist sem svo að farþegar geti í framtíðinni keypt pakkaferðir sem innihalda bæði skemmtiferðir og gistingu samhliða flugmiða í gegnum vefsíðuna.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni hyggst Glacier Airlines fljúga nokkrum sinnum í viku til Kaupmannahafnar, Amsterdam, Parísar, Frankfurt, London og Nuuk.
Mehmood hefur tjáð sig um fyrirhugað félag á Linkedin.
Þar fer hann stuttlega yfir þær áskoranir sem Play mætti á sinni vegferð áður en hann kynnti nýja félagið, sem byggja muni á samverkandi þáttum flugreksturs, ferða- og gistiþjónustu.
Þyrlufyrirtæki Mehmood Glacier Heli hefur áður verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Þannig hefur hann verið sakaður um undirboð á markaði með því að nota erlenda flugmenn.
Eins vakti athygli þegar þyrla á vegum fyrirtækisins skemmdi bíla með því að þyrla upp sandi og grjóti í nærliggjandi bíla í lendingu.

