Borgarráð hefur samþykkt stækkun á bíólóðinni að Álfabakka 8 og greiðir lóðarhafi 65 milljónir fyrir lóðina. Lóðarhafa er gert að greiða 6.000 krónur fyrir 3.253 fermetra byggingarrétt eða alls 19,5 milljónir. Áætlað byggingarmagn á lóðinni er 10.000 fermetrar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins og bókuðu sjálfstæðismenn að ekkert lægi fyrir um hvað fyrirhuguð uppbygging fæli í sér og hvaða áhrif hún myndi hafa á ásýnd og starfsemi í Mjóddinni.
Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir því að bíóhúsið lengist um 53,5 metra og verður heildarlengd hússins þá 120 metrar. Verslunarhús Nettó í Mjódd er 112 metrar og vöruhúsið og kjötvinnslan við Álfabakka 8a er 215 metrar.
Byggingaráform og stækkun á lóðinni eiga sér sögu aftur til ársins 1991 þegar Reykjavíkurborg samþykkti að stækka lóðina og árið 2008 var samþykkt deiliskipulag þar sem lóðin og byggingarreitur voru stækkuð. Ekki er greitt fyrir byggingarmagn sem tilheyrir lóðarstækkun frá 1991, þar sem það var þegar greitt.
Í greinargerð með skipulagstillögunni kemur fram að færa eigi bíósali úr kjallara á fyrstu hæð og endurvekja skemmtistað í kjallaranum, en þar var veitingastaðurinn Broadway fyrir fjórum áratugum.
Uppbyggingaraðili lóðarinnar er Álfabakki 8 ehf., sami lóðarhafi og byggði vöruhúsið við Álfabakka 8 sem mikill styr hefur staðið um. Staða þess máls er sú að byggingarleyfið hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með kröfu um niðurrif hússins á grundvelli þess að málið hafi verið illa kynnt og byggingin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
