Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu um að starfsdagar leikskóla borgarinnar verði skipulagðir þannig að þeir verði á sama tíma og starfsdagar grunnskóla innan sérhvers borgarhverfis.
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir tillöguna hafa verið í bígerð um nokkurt skeið.
„Það hefur lengi verið umkvörtunarmál foreldra sem eiga börn bæði á leikskóla- og grunnskólaaldri að starfsdagarnir séu þvers og kruss milli skólastiganna, sem gerir það að verkum að foreldrar þurfa að taka þeim mun fleiri frídaga með tilheyrandi óþægindum.“
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins tekur undir með Ragnhildi og segir veruleikann þann að sá takmarkaði fjöldi frídaga sem foreldrar geti tekið sér frá störfum sínum dugi oft varla til að ná yfir sumar- og jólaleyfi barna, hvað þá tilfallandi starfsdaga. „Okkur finnst þessi litla aðgerð eðlilegt framtak til að mæta fjölskyldum í borginni og auðvelda þeim lífið,“ segir hún.
Stefna skóla- og frístundasviðs er þegar sú að í hverju hverfi leitist skólastjórnendur leik- og grunnskóla við að samræma starfs- og skipulagsdaga til hagræðis fyrir fjölskyldur. Með tillögunni er ýtt enn frekar undir samræmi milli skólastiga.
Ragnhildur segir það fara eftir meirihluta borgarstjórnar ásamt skóla- og frístundasviði hversu fljótt tillagan gæti orðið að veruleika, en þó sé hún bjartsýn á að hún fljúgi í gegn.
„Þegar það er virkilega vilji fyrir hendi og allir, veri það stjórnmála- eða embættismenn, eru á sama máli, þá geta hlutirnir gerst ansi hratt. Ég tel að þetta sé hugmynd sem náðst geti breið sátt um og að henni geti jafnvel verið hrundið í framkvæmd fyrir næsta skólavetur.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
