Stefna á daggæslu í vor og skólahald næsta haust

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisfélag Grindavíkur ályktaði á aðalfundi sínum í kvöld um að stefnt yrði að daggæslu í Grindavík næsta vor og skólahaldi haustið 2026.

Eva Lind Matthíasdóttir, formaður félagsins, segist í samtali við mbl.is vera bjartsýn á að vilji sé innan Grindavíkur til að stefna í þá átt.

„Ég trúi bara ekki öðru en að það fólk sem staðið hefur í brúnni frá 10. nóvember 2023 sé í grunninn sammála um það að við ætlum að byggja bæinn okkar upp aftur. Þetta er bara skref í þá átt,“ segir Eva og vísar til jarðhræringa sem urðu þann dag með myndun kvikugangs og sigdala innan bæjarmarka Grindavíkur.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í meirihlutasamstarfinu í bæjarstjórn sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum, Framsókn og Rödd unga fólksins. 

Geta komið alls konar hlekkir á stefnuna

Eva segir skóla- og daggæslumál nú á höndum Grindavíkurnefndarinnar en að lögin um hana falli úr gildi við næstu sveitarstjórnarkosningar.

„Við ætlum okkur að vera með lista í þessum kosningum og taka þátt í kosningabaráttunni.

Við erum hópur af, mig langar að segja, mjög flottu fólki sem ætlar að byggja þennan bæ upp. Okkar forgangsmál er uppbygging Grindavíkur.“

Eva segir það þátt í þeirri vegferð að koma því á framfæri að stefnan sé þessi.

„Stefnur geta breyst og það geta komið alls konar hlekkir á stefnuna. Ef ekki haustið 2026, mun þá vorið 2027 líta betur út?“ spyr Eva Lind til að undirstrika að eingöngu sé stefnt á starfsemi daggæslu næsta vor og skólahald haustið 2026.

„Við þurfum að horfa í þessa þætti sem eru öryggi, atvinna og búseta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka