„Þarf að gæta þess að gera mig ekki vanhæfan“

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, svaraði spurningum Sigríðar …
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, svaraði spurningum Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Miðflokksins, um losunarheimildir á þingi í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/María

„Ég þarf að gæta þess mjög þegar ég svara fyrirspurnum þar að lútandi að gera mig ekki vanhæfan með einhverjum hætti, t.d. ef ákvörðun sem varðar lokun á losunarheimildareikningum yrði kærð.“

Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, við fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Miðflokksins, um endurskoðun losunarheimilda flugfélaga á Íslandi.

Sigríður gerði fall flugfélagsins Play að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, sem hún sagði að væri bæði sárt fyrir alla aðstandendur félagsins sem og efnahagslífið.

Hún benti á að fréttir hefðu borist af því að félagið hefði skuldað 1,2 milljarða kr. vegna losunarheimilda, en frá því var greint á mbl.is í morgun.

Hátt í helmingur af verulegri fjármögnun

„Ef rétt er þá mun það hafa talið upp í hátt í helming af verulegri fjármögnun, nýrri fjármögnun sem félagið hafði auðnast að afla skömmu fyrir fallið,“ sagði hún.

Hún bætti við að flugfélög á Íslandi hefðu verið háð þessum losunarkvótum frá árinu 2012. Þau hefðu fyrst fengið svokallaða fríkvóta sem ættu að renna út á þessu ári.

„En þegar menn setja þetta í þetta samhengi, 1,2 milljarðar í skuld vegna losunarheimilda flugfélags á Íslandi, eyju norður í Atlantshafi, þá hlýtur það að vekja upp spurningar hjá löggjafanum og ekki síst hæstvirtum ráðherra um hvort hér séu menn komnir einhvern veginn út fyrir öll velsæmismörk í þessum loftslagsmálum öllum. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann telji ekki raunverulega þörf á því að skoða sérstaklega þessar losunarheimildir flugfélaga í þessu ljósi og hvort það sé ekki ráð að fara jafnvel síðan dýpra ofan í málið og skoða hvort menn séu ekki komnir fram úr sér í öllu þessu, með það að markmiði í rauninni að Ísland hætti að taka þátt í þessu kerfi sem er að leggja greinilega þyngri byrðar á íslensk fyrirtæki en þau geta borið,“ sagði Sigríður.

Ákvarðanir kæranlegar og því mikilvægt að tala varlega

Jóhann Páll benti á að Umhverfis- og orkustofnun væri undirstofnun sem heyrði undir sig og sitt ráðuneyti. Sú stofnun hefði farið með þessi mál og tekið ákveðnar ákvarðanir sem hefðu að gera með losunarheimildir flugfélaga.

„Þetta eru ákvarðanir sem eru kæranlegar til míns ráðuneytis og til mín þannig að ég þarf að gæta þess mjög þegar ég svara fyrirspurnum þar að lútandi að gera mig ekki vanhæfan með einhverjum hætti, t.d. ef ákvörðun sem varðar lokun á losunarheimildareikningum yrði kærð,“ sagði Jóhann Páll.

Að öðru leyti gæti hann svarað því á almennum nótum að það væri gríðarlega mikilvægt í þessu samstarfi við Evrópusambandið um loftslagsmál að halda á lofti sérstöðu Íslands, nýta öll tækifæri til þess og vera vakandi fyrir þessum hagsmunum.

„Það tel ég að hafi oft gengið ágætlega en betur má ef duga skal. Við munum halda áfram að nálgast þessi mál öll með gagnrýnum augum út frá hagsmunum Íslands í þessu sameiginlega verkefni með Evrópu sem loftslagsmálin og aðgerðir vegna þeirra eru,“ sagði ráðherra.

Er það ekki áhyggjuefni að þetta sé farið að telja í milljörðum króna?

Sigríður sagði að Jóhann Páll gæti ekki vikið því hlutverki sínu til hliðar sem væri fyrst og fremst pólitísk stefnumörkun í þessum málaflokki.

„Mig langar að vita hvort hæstvirtur ráðherra telji það ekki áhyggjuefni að þessi kaup á þessum loftslagsheimildum séu farin að telja í milljörðum króna fyrir fyrirtæki á Íslandi. Mig langar þá líka að spyrja ráðherrann sérstaklega um það sem viðvíkur skipaflutningum vegna þess að síðasta ríkisstjórn lýsti því sérstaklega yfir að það yrði ekki sótt um undanþágu fyrir Ísland þegar kemur að loftslagsheimildum í skipaflutningum og hvort það sé ekki ástæða til að endurskoða þá ákvörðun.

Svo langar mig líka til að spyrja hæstvirtan ráðherra um það hvort hann geti upplýst okkur um það hvort Ísland sé að hafa einhverjar raunverulegar tekjur úr þessu viðskiptakerfi. Það hefur verið upplýst um það að Noregur hefur verulegar tekjur af sölu loftslagsheimilda en á það hefur verið bent, að minnsta kosti fyrir nokkrum árum, að Ísland hefði engar slíkar tekjur eða litlar heldur skekkti viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir þvert á móti samkeppnisstöðu Íslands,“ sagði Sigríður.

Skilað Íslandi talsverðum ávinningi

Jóhann Páll sagði að þegar horft væri á loftslagssamstarf Íslands og Evrópusambandsins almennt, þátttöku í ETS-kerfinu t.d., þá teldi hann að það hefði skilað Íslandi talsverðum ávinningi.

„Varðandi tekjur þá eru þær t.d. í ETS-kerfinu á bilinu 10–20 milljarðar. Á móti kemur svo auðvitað að árið 2019 voru kröfur um hertan samdrátt í samfélagslosunarkerfinu færðar inn í EES-samninginn. Nú á eftir að ráðast hvernig Ísland kemur fjárhagslega út úr því og stefnir að óbreyttu í að við sitjum uppi með ákveðna skuld sem gæti þó orðið miklu lægri heldur en nemur öllum þeim tekjum sem við höfum fengið í gegnum ETS-samstarfið, sem ég tel að hafi líka komið stóriðjunni mjög til góða,“ sagði ráðherra.

Hann bætti við að það væri vissulega rétt að það væri ákveðin sérstaða sem Ísland nyti og sérstakar aðstæður þegar kæmi að sjóflutningum, t.d. og fluginu sem væri gríðarlega mikilvægt að taka mið af.

„Þess vegna skiptir virk hagsmunagæsla fyrir Ísland gagnvart Evrópusambandinu í þessum málum sem öðrum miklu máli,“ sagði Jóhann Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert