Þyrla Landhelgisgæslunnar ætti að vera komin á Grundarfjörð.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en langferðabíll með yfir fjörutíu farþega fór út af veginum í Seljafirði inn af Hraunsfirði á Snæfellsnesi á sjötta tímanum í dag.
Jón Þór segir í samtali við mbl.is þyrluna hafa verið væntanlega inn á Grundarfjörð þar sem opna eigi fjöldahjálparstöð.
Vinna stendur enn yfir á vettvangi að sögn Jóns Þórs. Segir hann viðbragðsaðila vinna að því að ná farþegum út úr rútunni, hlúa að þeim og flytja af vettvangi.
Enn er ekkert vitað um meiðsli farþega og aðrar upplýsingar um þá liggja ekki fyrir, né á hvers vegum rútan sé.
