Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo farþega af þeim rúmlega 40 sem voru um borð í rútu sem fór út af veginum í Seljafirði inn af Hraunsfirði á Snæfellsnesi á sjötta tímanum í dag.
Guðmundur Birkir Agnarsson, vakthafandi aðgerðarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, segir í samtali við mbl.is að þyrlan hafi sótt fólkið í Grundarfjörð en þar var fjöldahjálparstöð opnuð í kjölfar slyssins.
Fólkinu var komið undir læknishendur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að í rútunni hafi verið erlendir ferðamenn en hann hefur ekki frekari upplýsingar um hópinn eða á hvers vegum hann er.
Jón Þór segir að allir hafi verið fluttir af vettvangi slyssins og þeir sem slasaðir voru hafi verið fluttir ýmist á Stykkishólm eða Akranes.
Ekki er ljóst hversu margir slösuðust að sögn Jóns Þórs en hann segir alla slegna eftir atburði dagsins.
