Upplýsa þurfi fólk um raunverulega stöðu Grindavíkur

Otti Rafn Sigmarsson segir að nóg sé um að vera …
Otti Rafn Sigmarsson segir að nóg sé um að vera í Grindavík. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi

Otti Rafn Sigmarsson, fyrrverandi formaður Landsbjargar og Grindvíkingur, hvetur fólk til að horfa á jákvæðu hliðarnar hvað varðar Grindavík. Hann segir mikinn hug í bæjarbúum og að margt sé að gerast í bænum á degi hverjum.

„Það virðist algengara að fólk telji að þar séu enn rjúkandi rústir, en fólk horfir kannski ekki til þess að á síðustu tveimur árum hefur ansi mikið verið lagað, gert og bætt. Það er fullt af fólki sem starfar í Grindavík í dag,“ segir Otti í samtali við mbl.is. 

Spurður hvort ummæli Jóns Gnarr í þættinum Vikan á RÚV hafi verið kveikjan að færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær segir hann svo ekki endilega vera.

„Nei, ekki endilega, þó að það hafi auðvitað haft áhrif. Á föstudagskvöldið mættu yfir þúsund manns í íþróttahúsið. Allt þetta fólk veit hvernig staðan er og það vill koma. Á sama tíma fæ ég skilaboð frá fólki sem spyr hvort ég ætli virkilega til Grindavíkur eða á körfuboltaleik þar. Fólk virðist hissa á því að eitthvað sé að gerast í bænum. Mér fannst mikilvægt að minna á að það er fullt að gerast hér suður frá, nóg um að vera, og þó að óvissa sé til staðar er samt allt í lagi með bæinn,“ segir hann.

Vantar oft heildarmyndina

Spurður hvort honum hafi þótt eitthvað hafa farið úrskeiðis í fréttaflutningi um bæinn undanfarin tvö ár segir Otti svo ekki vera, en telur að oft vanti upp á að sýna heildarmyndina.

„Nei, en það sem vantar upp á er hin hliðin. Fjölmiðlar eru oft fljótir að grípa neikvæðu hliðina þegar eitthvað fer úrskeiðis eða þegar það eru einhverjar hamfarir en eru kannski síður að taka upp jákvæðu hliðina. Það er kannski ekki jafn spennandi en það er samt það sem vantar upp á, þetta sem gerist hérna daglega, þá daga þegar það er ekki eldgos í gangi,“ segir hann og bætir við:

„Maður yrði þakklátur ef að þegar fólk talar um Grindavík þá sé það upplýst um raunverulega stöðu, ekki eins og hún var fyrir tveimur árum.“

Óvissan gerir búsetu erfiða

Að mati Otta er öruggt að vera og starfa í Grindavík en hann viðurkennir að óvissan geri það erfiðara að búa þar.

„Það er ástæðan fyrir því að svo fáir búa í bænum í dag. Það hangir alltaf eitthvað yfir,“ segir hann.

Spurður hvort viðhorf bæjarbúa hafi breyst frá því í nóvember 2023, þegar jarðhræringar hófust, segir hann svörin misjöfn.

„Það er allur gangur á því hvort fólk ætli að snúa aftur heim eða ekki. Ég held að það verði aldrei þannig að allir komi til baka, en mér finnst upp á síðkastið fleiri vera jákvæðir.“

Horfurnar jákvæðar

Otti er sannfærður um að Grindavík hafi burði til að ná sér að fullu.

„Ekki spurning. En það verður langhlaup og mun taka tíma. Þetta er langt ferli og við getum aldrei vitað hvað náttúran býður okkur upp á. Eins og þetta hefur þróast síðasta árið eru horfurnar jákvæðar,“ segir hann og heldur áfram:

„Ég hvet fólk sem vill kynna sér málið að koma og heimsækja okkur, taka sunnudagsbíltúr til Grindavíkur, fá sér ís, fara í sund, borða, mæta á körfuboltaleiki eða fara í golf. Það er allt í gangi.“

Að lokum segir Otti mikilvægt að halda í jákvæðni og samstöðu.

„Við þurfum bara að halda áfram að vera jákvæð og taka tillit til hvers annars. Ég vona að fólk sé jákvætt fyrir framhaldinu í bænum, frekar en að telja allt vont og ómögulegt. Ég ætla ekki að lasta neinn sem hefur talað illa um okkur. Það þarf að breyta þessu hugarfari og fólk verður að koma og sjá með eigin augum og upplifa,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert