Sendingarþjónustan Wolt og Costco hafa hafið samstarf sem gerir viðskiptavinum Costco kleift að versla um 2.000 mismunandi vörur og fá þær sendar heim. Þetta er í fyrsta sinn sem vörur Costco eru aðgengilegar á netinu hér á landi.
Hingað til hafa neytendur aðeins getað keypt í versluninni sjálfri og rætt verð og vöruúrval fyrirtækisins á samfélagsmiðlum.
Jóhann Már Helgason, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Wolt, segir að bæði verði hægt að panta matvöru og ýmsa smærri hluti í gegnum þjónustuna. Stærri raftæki, á borð við sjónvörp, verði hins vegar ekki í boði.
„Þetta eru yfir tvö þúsund vörunúmer sem komin eru inn. Allt frá dýrafóðri og þvottaefni til minni heimilistækja, en langstærsti hluti úrvalsins er matvara,“ segir Jóhann Már.
Umbúðir í Costco eru gjarnan stórar, og að sögn Jóhanns eru engin takmörk á því hversu mikið hægt er að panta.
„Í rauninni eru engin mörk. Við fengum til dæmis nýlega pöntun upp á um 300 þúsund krónur og þurftum að senda nokkra sendla saman með hana,“ segir hann og bætir við að í því tilfelli hafi verið um að ræða fyrirtæki sem pantaði drykkjarvöru.
„Fyrirtæki sem versla við Costco geta því nýtt sér þjónustu okkar líka,“ segir Jóhann Már.
Að sögn Jóhanns hefur undirbúningur staðið yfir í nokkurn tíma og Costco og Wolt eru einnig að hefja svipað samstarf í Svíþjóð.
„Við erum þegar farin að sjá hvað er vinsælast – jarðarberin eru greinilega að hitta í mark á markaðstorginu,“ segir hann að lokum.
Í fréttatilkynningu lýsir Costco ánægju sinni með samstarfið.
„Við erum mjög ánægð með að viðskiptavinir okkar geti nú notið þeirra þæginda að fá vörur frá Costco sendar beint heim að dyrum með Wolt. Samstarfið gerir okkur kleift að þjónusta meðlimi okkar á nýjan hátt, gera það aðgengilegra að versla í Costco ásamt því að kynna Costco fyrir fleiri Íslendingum í gegnum samstarfið,“ segir James McGlone, framkvæmdastjóri Costco á Íslandi.