Rekstrarafgangur Úrvinnslusjóðs á síðasta ári var 585 milljónir króna samkvæmt niðurstöðu ársreiknings sjóðsins. Á ársfundi sjóðsins á dögunum kom fram að misvel gengur að standa undir markmiðum um endurvinnslu, meira skilar sér af plasti en áður en minna af gleri og málmi.
Í ársskýrslu Úrvinnslusjóðs fyrir árið 2024 kemur fram að ekki sé markmið í rekstrinum að skila miklum afgangi. Þess í stað á að tryggja jafnvægi í rekstri hvers sjóðs sem tilheyrir ákveðnum vöruflokkum. Lögum samkvæmt má aðeins nýta álagt úrvinnslugjald hvers vöruflokks til að greiða fyrir meðhöndlun hans.
„Framsetning ársreiknings endurspeglar þannig eingöngu stöðu Úrvinnslusjóðs sem ríkisaðila A-hluta samkvæmt lögum um opinber fjármál en stangast aftur á móti á við lög um úrvinnslugjald. Úrvinnslusjóður hefur ítrekað bent á þessa staðreynd í ársreikningum sínum,“ segir í kynningu Söndru Brár Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra og Kristófers Más Maronssonar stjórnarformanns sjóðsins.
Úrvinnslusjóður náði að uppfylla töluleg markmið í flestum vöruflokkum í fyrra. Blikur eru hins vegar á lofti því í ár munu töluleg markmið um endurvinnslu á plastumbúðum hækka úr 22,5% í 50% og fyrirsjáanlegt að það verði á brattann að sækja að ná þeim.
„Einnig erum við, líkt og önnur Evrópulönd, talsvert undir markmiðum söfnunarhlutfalls á raf- og rafeindatækjum og rafhlöðum og þarf að sækja sérstaklega fram á þeim sviðum á næstu árum. Samhliða því er mikilvægt að endurskoða forsendur markmiða um söfnunarhlutfall til þess að endurspegla raunverulegan endingartíma viðkomandi vöru,“ segir í kynningu.
Þegar rýnt er í einstaka vöruflokka kemur í ljós að mismunandi er hversu vel gengur að uppfylla endurvinnslumarkmið. Lagt er upp með að endurvinna 60% af öllum pappa- og pappírsumbúðum en endurvinnsluhlutfall er hins vegar 97%.
Talsverð aukning varð í endurvinnslu á plastumbúðum frá 2023 til 2024 eða um 12%. Endurvinnslumarkmið eru 22,5% en 29% umbúða skiluðu sér. Samdráttur varð aftur á móti bæði í gleri og málmi. Um 63% glers skiluðu sér, sem er rétt yfir endurvinnslumarkmiðum, en 63% málma skiluðu sér. Markmið í þeim flokki eru 50%.
Gríðarleg aukning varð í skilum á umbúðum úr viði, um 54%, sem nær eingöngu má rekja til fyrirtækja. Endurvinnslumarkmið í þeim flokki eru 15% en endurvinnsluhlutfall árið 2024 var 160%.
Mikið vantar upp á að markmið um söfnun færanlegra rafhlaðna náist. Þó að 53% aukning hafi verið í skilum milli ára var söfnunarhlutfallið aðeins 49% en markmið eru 65%. Svipaða sögu er að segja af skilum raf- og rafeindatækja, þar skiluðu sér 30% en markmið hljóða upp á 65% skil.
Athygli vekur að endurvinnsluhlutfall veiðarfæra í sjávarútvegi er afar hátt. Í tvo áratugi hefur verið í gildi samningur milli Úrvinnslusjóðs og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem felur í sér að veiðarfæri sem innihalda plast eru undanþegin álagningu úrvinnslugjalds en SFS annast söfnun og úrvinnslu veiðarfæraúrgangs. Stefnt er að því að 660 tonn safnist að lágmarki ár hvert. Í fyrra söfnuðust hins vegar ríflega tvö þúsund tonn og af þeim innihéldu 1.613 tonn plast og voru send í endurvinnslu.
Umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu 6. október.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
