„Þetta var mjög fjölbreytt málþing og skemmtilegt að hlusta á erindi um þýðingu fræðiorða í hinum ýmsu greinum,“ segir Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, dósent í efnafræði við Háskóla Íslands, af málþingi um íðorðastarf við skólann sem málnefnd hans og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stóðu fyrir í Eddu – húsi íslenskunnar við Arngrímsgötu í dag.
Í kynningarefni um málþingið, sem Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri markaðs- og samskiptasviðs skólans, gerði sitt besta til að miðla mbl.is í dag kemur fram að stofnunin hafi það lögbundna hlutverk að miðla þekkingu og færni til nemenda og samfélagsins alls jafnframt því að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu fræðasamfélagi.
„Brýnt er að til sé skýr og nákvæmur fræðilegur orðaforði á íslensku við hlið fræðiorða á erlendum tungumálum svo iðka megi vísindi og fræði á íslensku og miðla til nemenda og samfélagsins á Íslandi,“ segir þar enn fremur og má leiða líkur að því málþingið í dag hafi verið græðlingur af meiði þessarar lagaskyldu skólans.
Flutti Silja Bára Ómarsdóttir rektor inngangserindi, ekki alls ókunn íðorðasmíð sem hún sjálf hefur komið að á sviði alþjóðastjórnmála og stjórnmálafræði, en auk þess greindu valdir fyrirlesarar frá vinnu við fjögur orðasöfn í ólíkum greinum, jarðeðlisfræði, efnafræði, leiklist og orðasafni um risaeðlur.
Kynnti Benjamín efnafræðidósent íðorðastarf sinnar greinar við þriðja mann og áfram segir hann af samningu íðorða að bráðnauðsynlegt sé að íslensk fræðiheiti séu til í fræðilegum greinum „og það getur oft verið gaman að skoða muninn á enskum og íslenskum hugtökum og taka svo kannski alveg nýtt hugtak á íslensku sem okkur finnst kannski lýsa fyrirbærinu betur en enska orðið“, segir dósentinn.
„Það er líka gaman að fræðast um aðferðafræði hinna ýmsu hópa við starfið,“ heldur Benjamín áfram og blaðamaður spyr hann út í hvaða hugtök festist fremur en önnur í málvitund almennings og vísar til „stiklutextaívafsmáls“, eftirlætis úr gömlu tölvuíðorðasafni runnu undan rifjum íslenskrar málnefndar þar sem einfaldlega fór að viti blaðamanns snilldarleg þýðing á „hypertext mark-up language“ sem er ekkert annað en vefsíðuforritunarmálið HTML.
„Þau hugtök sem eru nógu gegnsæ festast best,“ svarar Benjamín um hæl og segir þýðingar sem byggi á íslenskum orðum sem ekki eigi sér sögu í tungumálinu síður festast en gamalgróin íslensk orð sem notuð séu um ný fyrirbæri.
„Þarna nýtast kennslubækur til dæmis mjög vel og við sem erum byrjuð að nota hugtök höldum okkur við þau frekar en að sletta. Ef maður er í umhverfi þar sem fólk vill frekar nota ensku hugtökin er auðvelt að festast í þeim og þá komast hugtök ekki í almenna notkun,“ segir Benjamín og nefnir hve mikilvægt sé að nota íslensku hugtökin við kennslu, með því fái þau mun betri dreifingu í samfélaginu.
Finnst þér mikilvægt að þjóðir sem vilja halda í sín tungumál leggi mikla vinnu í íðorðasöfn og íðorðasmíð í fræðigreinum?
„Já, ég held að það sé mjög mikilvægt að þjóðir geti rætt um fræðigreinar á sínu eigin móðurmáli,“ svarar Benjamín, „það er það sem margir vilja og ég heyri það mikið við kennslu. Þegar kennslubækur eru á ensku myndast ákveðinn þröskuldur sem gerir það enn mikilvægara að geta gert efnið aðgengilegt á okkar móðurmáli,“ segir Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson að skilnaði, dósent í efnafræði við Háskóla Íslands og áhugamaður um að skila sinni fræðigrein á hreinni og óspjallaðri íslensku til nemenda sinna.