Alls greiddi Reykjavíkurborg ríflega 12,7 milljarða króna í fjárhagsaðstoð til einstaklinga, innlendra og erlendra, á þriggja ára tímabili, þ.e. árin 2022 til 2024. Hluta þessa fjárframlags, rúmlega 5,4 milljarða, fékk borgin endurgreiddan frá ríkinu en afgangurinn, tæplega 7,3 milljarðar, féll á borgarsjóð.
Þetta kemur m.a. fram í svari sviðsstjóra velferðarsviðs borgarinnar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði, en svar við fyrirspurninni var lagt fram á fundi ráðsins 1. október sl.
Endurgreiðslurnar eru vegna erlendra ríkisborgara sem hafa haft lögheimili á Íslandi skemur en tvö ár, en ríkissjóður endurgreiðir fjárhagsaðstoð þeirra einstaklinga.
Spurt var um fjárhagsaðstoð til einstaklinga frá þeim þjóðlöndum sem nema meira en 1% af heildarfjölda notenda fjárhagsaðstoðar og kemur fram í svarinu að nær helmingur fjárhagsaðstoðarinnar hafi fallið íslenskum ríkisborgurum í skaut, eða tæpir 5,3 milljarðar samtals á ofangreindu þriggja ára tímabili, en 5.987 nutu þeirra greiðslna.
Þegar kemur að fjárhagsaðstoð við erlenda ríkisborgara sem hér eru búsettir hefur mest fé fallið Úkraínumönnum í skaut, enda eru þeir langflestir þeirra útlendinga hér sem fjárhagsaðstoðar hafa notið. Þáðu þeir 2.465 milljónir á tímabilinu og áttu 2.840 manns þar hlut að máli.
Næststærsti hópurinn sem hér um ræðir er frá Venesúela, en 848 manns af því þjóðerni fengu fjárhagsaðstoð. Samtals fengu þeir greiddar 830 milljónir á fyrrgreindu þriggja ára tímabili.
Þriðji stærsti hópurinn er Palestínumenn, en 440 af því þjóðerni fengu fjárhagsaðstoð á umræddu tímabili. Nam fjárframlag til þeirra 670 milljónum króna. Komu hlutfallslega hæstu greiðslurnar í hlut þeirra.
Pólverjar koma svo næstir, en 440 þeirra fengu greiddar 385 milljónir árin þrjú.
Þar á eftir kemur fólk frá Afganistan, Sýrlandi, Írak, Litáen, Rúmeníu og Sómalíu og námu heildargreiðslur til þess um 1.560 milljónum. Fólk af öðru þjóðerni en framangreindu fékk síðan tæpan milljarð greiddan.
Heildargreiðslur vegna fjárhagsaðstoðar til útlendinga námu rúmlega 7,4 milljörðum á tímabilinu.
Í svari borgarinnar kemur og fram að eftir að tillit hafi verið tekið til endurgreiðslu úr ríkissjóði hafi nettóútgjöld vegna erlendra ríkisborgara á árunum 2022 til 2024 numið á milli 603 og 810 milljónum króna á ári.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
