Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík, segist vilja vera áfram í Grindavík.
Miðflokkurinn hlaut glæsilega kosningu í Grindavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum eða 32,4% og þrjá bæjarfulltrúa. Flokkurinn er samt sem áður í minnihluta í bæjarstjórn þar sem hinir flokkarnir þrír mynduðu meirihluta.
Orðrómur hefur verið uppi um að Hallfríður hafi hug á að taka slaginn með Miðflokknum í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum en í samtali við mbl.is segir Hallfríður ekkert vera til í því. Hún sé með lögheimili í Grindavík og stefni aftur heim, þó hún búi að svo stöddu í Reykjanesbæ.
„Við gerðum hollvinasamning um húsið okkar og höfum í raun aldrei afhent það. Það er heilt og er bara draumaheimili,“ segir Hallfríður. Hún segir engin ung börn á heimilinu og að Grindavík sé í huga og hjarta fjölskyldunnar.
„Ég tel mig samt vera skynsama konu og er ekki í þeim hópi sem hyggst fara heim alveg sama hvað.“
Segir Hallfríður stjórn Miðflokksins ekki hafa komið að máli við hana varðandi vistaskipti til Reykjanesbæjar, þar sem hún er búsett í dag, og enginn annar innan flokksins.
Spurð hvort hún útiloki að gefa kost á sér fyrir Miðflokkinn í Reykjanesbæ, segir Hallfríður að hún útiloki í sjálfu sér ekki neitt þó henni þyki hugmyndin fráleit.
„Það er ekki ennþá búið að taka ákvörðun um með hvaða hætti verður kosið í Grindavík eða hverjir fái að kjósa þar og við vitum eiginlega ekki neitt.
Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég gefi áfram kost á mér og tek bara eitt skref í einu.“
Útilokar þú þá ekki að þú munir hverfa úr bæjarmálunum?
„Nei þú veist, ég útiloka bara ekki neitt.“
