Ísland undanskilið verndartollum á stáli

EES-ríkin; Ísland, Noregur og Lichtenstein verða samkvæmt tillögunni undanþegin verndarráðstöfunum …
EES-ríkin; Ísland, Noregur og Lichtenstein verða samkvæmt tillögunni undanþegin verndarráðstöfunum en samþykki ráðherraráðs Evrópusambandsins og Evrópuþingsins þarf til að tillaga framkvæmdastjórnar verði að veruleika. mbl.is/Alexander

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur til verndarráðstafanir gagnvart innflutningi á stáli til ríkja innan sambandsins. Ekki liggur fyrir hvort sömu ráðstöfunum verði beitt þegar kemur að járnblendi, sem framleitt er í miklum mæli á Íslandi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef framkvæmdastjórnarinnar.

EES-ríkin; Ísland, Noregur og Lichtenstein verða samkvæmt tillögunni undanþegin verndarráðstöfunum en samþykki ráðherraráðs Evrópusambandsins og Evrópuþingsins þarf til að tillaga framkvæmdastjórnar verði að veruleika.

Á eingöngu við stál

Tillagan á eingöngu við um stál og er komin til vegna offramleiðslu á stáli á heimsvísu. Framkvæmdastjórnin leggur til að settur verði kvóti á innflutning og tollar hækkaðir á allt umfram kvóta. Í tilkynningunni segir að aðgerðirnar séu til þess fallnar að vernda stáliðnaðinn í Evrópu frá neikvæðum afleiðingum offramleiðslu stáls.

Um ástæður þess að EES-ríkin verði undanþegin verndarráðstöfununum segir í tilkynningu framkvæmdastjórnar ESB að afar lítið af stáli sé flutt frá EES-ríkjunum inn í ríki Evrópusambandsins og í ljósi mikillar samþættingar við innri markaðinn vegna EES-samningsins muni innflutningur frá ríkjunum þremur ekki falla undir tollakvóta eða álagningu.

Ákvörðun um kísilmálm í nóvember

Framkvæmdastjórnin íhugar enn aðgerðir vegna kísilmálms og því er ekki ljóst hvort Ísland eða önnur EES-ríki verði undanþegin þeim ráðstöfunum. Evrópusambandið hefur meiri hagsmuni þar gagnvart Íslandi og Noregi sem hafa flutt mikið magn kísilmálms inn til ríkja Evrópusambandsins.

Það að Evrópusambandið tíni til röksemdir um samþættingu við innri markaðinn í tilfelli stáls vekur vonir um að slíkt verði einnig gert í tilfelli kísilmálms. Von er á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í nóvember hvað kísilmálminn varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert