Ísland virðist sér á báti meðal Norðurlandanna

6,3% íslenskra kennara eru ekki með háskólapróf, sem er hæsta …
6,3% íslenskra kennara eru ekki með háskólapróf, sem er hæsta hlutfallið innan TALIS-rannsóknarinnar. Til samanburðar er meðaltalið um 1,7% meðal OECD ríkjanna. mbl.is/Eyþór

Aðeins helmingur nýrra kennara telur að kennaramenntun þeirra hafi búið þá vel undir innihald faggreina. Hlutfallið lækkar um fimmtán prósentustig frá árinu 2018.

Þetta sýna niðurstöður TALIS-rannsóknarinnar, sem er stærsta alþjóðlega rannsóknin á kennurum, skólastjórnendum og kennsluháttum, og er framkvæmd á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Þá er hlutfall kennara á Íslandi sem ekki er með háskólapróf það hæsta innan allra ríkja sem gangast undir TALIS.

„Þetta er verulega neikvæð þróun sem kallar á athygli,“ segir í landsskýrslu Íslands um niðurstöðurnar.

Mjög sjaldgæft að kennararnir séu ekki sérmenntaðir

Alls segja 17% íslenskukennara og stærðfræðikennara námsgreinina sem þeir kenna ekki hafa verið hluta af menntun sinni.

Hlutfallið er mun hærra meðal náttúruvísindakennara, en 26% þeirra segja að náttúruvísindi hafi ekki verið hluti af menntun sinni.

Ísland virðist sér á báti meðal Norðurlandanna þegar kemur að þessu en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum er mjög sjaldgæft að kennarar kenni námsgreinar sem þeir eru ekki sérmenntaðir í.

Minna en helmingur með meistarapróf

Hlutfall íslenskra kennara með formlegt menntunarstig er umtalsvert lægra en meðal annarra ríkja OECD.

Aðeins 41% kennara hafa meistarapróf á Íslandi samanborið við 57% meðaltal innan OECD, og 75% meðaltal innan Evrópusambandsins.

Þá eru 6,3% íslenskra kennara ekki með háskólapróf, sem er hæsta hlutfallið innan TALIS-rannsóknarinnar. Til samanburðar er meðaltalið um 1,7% meðal OECD ríkjanna.

Starfsþróun ekki skilað árangri

Nánast allir kennarar á Íslandi tóku þátt í einhvers konar starfsþróunarverkefnum síðastliðin ár, eða um 97% þeirra. Er það svipað hlutfall og þekkist innan OECD.

Kennararnir sóttu aðallega námskeið, málstofur eða vinnustofur.

Í landsskýrslunni segir þó að þrátt fyrir að þátttaka hafi verið mikl, hafi aðeins 57% kennara upplifað að starfsþróunin hafi haft jákvæð áhrif á kennslu þeirra. 

Þess ber að geta að aðeins 30-35% kennara í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi upplifðu að starfsþróunin hefði haft jákvæð áhrif á kennslu þeirra.

Hlutfallið er hæst í Danmörku af Norðurlandaþjóðunum en þar var hlutfallið 68%.

Auka þarf gæði ekki þátttöku

Í landsskýrslunni segir að úrlausnarefnið fyrir íslenskt menntakerfi varðandi starfsþróun sé ekki að auka þátttöku heldur auka gæði og gagnsemi starfsþróunar.

„Betri samræming við skilgreindar þarfir kennara og kerfisbundið mat á áhrifum gæti brúað þennan áhrifamun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert