Stór hluti íslenskra kennara kennir fög sem ekki voru hluti af kennaramenntun þeirra.
Efnahags- og framfarastofnunin telur þetta áhyggjuefni sem þurfi að veita athygli, sérstaklega í ljósi þess að nýir kennarar telja að kennaramenntun undirbúi þá verr en áður.
Þetta sýna niðurstöður Talis-rannsóknarinnar, sem er stærsta alþjóðlega rannsóknin á kennurum, skólastjórnendum og kennsluháttum.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur nú birt landskýrslu fyrir Ísland um niðurstöðurnar.
Þar kemur fram að starfsánægja kennara sé lykilatriði en kennarar sem eru ánægðir í starfi eru sagðir 80% ólíklegri til að ætla að hætta á næstu fimm árum. Þannig mælir OECD með því að stefnumótun forgangsraði aðstæðum sem byggja upp og viðhalda starfsánægju kennara.
Mikil starfsánægja er meðal íslenskra kennara, að launum undanskildum. Þannig sögðust 94% kennara ánægðir með störf sín, sem er hærra en hlutfallið innan OECD sem mælist 89%. Ánægja íslenskra kennara hefur haldist óbreytt frá árinu 2018.
Um 21% kennara á Íslandi segjast upplifa mjög mikla streitu í starfi, sem er hærra en meðaltal OECD sem mælist 19%.
Þá segja 5% kennara á Íslandi að starf þeirra hafi mjög mikil neikvæð áhrif á andlega heilsu þeirra, samanborið við 10% meðaltal OECD. Um 5% íslenskra kennara upplifa að starfið hafi mjög mikil neikvæð áhrif á líkamlega heilsu þeirra, samanborið við 8% meðaltal OECD.
OECD segir að ánægja með laun og starfsaðstæður séu hærri meðal kennara sem hafa nýlega hafið störf. Ánægjan dali þó hratt með reynslu.
Bendi það til að halda þurfi kennurum í starfi eftir fyrstu fimm árin, ekki bara laða þá að starfinu.
Þá sýna niðurstöðurnar að mikil þátttaka í starfsþróun skili ekki sjálfkrafa árangri heldur þurfi stefnumótun að leggja áherslu á gæði fremur en magn í starfsþróun.