Kortleggja eignarhald 20 sjávarútvegsfyrirtækja

Pólitísk sátt var um málið á Alþingi og greiddi enginn …
Pólitísk sátt var um málið á Alþingi og greiddi enginn atkvæði gegn málinu. mbl.is/Eyþór

Alþingi hefur samþykkt skýrslubeiðni Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um að kortleggja eignarhald 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja og eigenda þeirra í atvinnulífi í óskyldum rekstri á Íslandi. 

Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn málinu. 37 þingmenn greiddu með, 22 voru fjarverandi og 4 með fjarvist. 

Dagur tjáði sig um málið í færslu á Facebook nú fyrir skömmu. Þar segir hann að verkefnið hafi farið af stað að hans tillögu síðastliðið vor en byggi á eldra máli sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra lagði fram, þá sem óbreyttur þingmaður. 

Mikilvægt framlag til umræðunnar

Í greinargerð skýrslubeiðninnar segir að með skýrslugerðinni verði hægt að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag.

„Yrði skýrsla þessi mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga og skráningu þeirra á markað ásamt því að upplýsa umræðu um mikilvægi þess að þjóðin fái eðlilegan arð af auðlindum sínum,“ segir í greinagerðinni.

„Margt bendir til þess að arður af auðlindinni hafi ekki nema að takmörkuðu leyti ratað til þjóðarinnar og hafi auðsöfnun fyrir vikið gefið forskot og færi til stórra fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja og eigenda þeirra í miklum fjölda fyrirtækja í óskyldum rekstri. Mikilvægt er að lýsa gegnum þessa þróun, sem staðið hefur árum saman og vonandi verður þess ekki langt að bíða að skýrslan líti dagsins ljós,“ skrifar Dagur í færslu á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert