Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, segir að ný drög að búvörulögum miði að því að tryggja bændum og framleiðslufélögum í þeirra eigu sambærilegt svigrúm til hagræðingar og samvinnu og þekkist í nágrannalöndum.
„Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja að bændur og framleiðslufélög í þeirra eigu og undir þeirra yfirráðum hafi sambærilegt svigrúm til hagræðingar og samvinnu eins og þekkist í löndunum í kringum okkur,“ segir ráðherrann. „Það er eitt og þar með verið að tryggja stærri hlut bænda í virðiskeðjunni í matvælaframleiðslunni.“
Hún segir gagnrýnina sem komið hafi fram á frumvarpinu á þessum upphafsstigum bera þess merki að margir hafi ekki kynnt sér efnið nægilega.
„Málið fór í tveggja vikna samráð á föstudaginn og mér finnst gagnrýnin að miklu leyti endurspegla að fólk hafi kannski farið af stað án þess að vera búið að kynna sér efnið í þaula. Ég á fundi með helstu hagsmunaaðilum á næstu dögum og geri ráð fyrir að línur skýrist eftir það,“ segir hún í samtali við mbl.is eftir ríkisráðsfund í morgun.
Hvað varðar gagnrýni Bændasamtaka Íslands á að 71. grein búvörulaga, sem lýtur að undanþáguheimildum mjólkuriðnaðarins, falli brott, segir Hanna Katrín að ástæðan sé einföld.
„Með þessum breytingum, og í ljósi þeirrar miklu hagræðingar sem átt hefur sér stað undanfarin 20 ár á grundvelli þessarar greinar, þá er hún einfaldlega orðin óþörf,“ útskýrir hún.
„Það að fella hana út og setja hinar heimildirnar inn breytir í raun engu. Nema til viðbótar er verið að setja svokallaða söfnunarskyldu á, sem hefur ekki verið lögbundin áður. Fyrirtæki sem hafa 40% markaðshlutdeild eða meira í einstökum greinum bera þá lagaskyldu, verði frumvarpið að lögum, til að taka á móti mjólkurafurðum eða kjötafurðum.“
Ráðherrann bætir við að tryggt verði að svokallað heimtökugjald í sláturhúsum verði ekki hærra en raunkostnaður, til að auðvelda bændum að taka vöruna heim og selja beint frá býli.
„Það er ekki verið að hrófla við verðlagsákvörðun í mjólk. Verðlagsnefnd búvara og það mál er áfram óbreytt,“ segir hún.
„Þannig að ég held að þegar rykið sest, eins og ég geri ráð fyrir að gerist á næstu dögum, verði meira jafnvægi í umræðunni. En auðvitað er samráð ferlið þar sem menn koma með rökstuddar athugasemdir og við tökum síðan tillit til þeirra. Samráðið er í fullum gangi.“
Aðspurð um gagnrýni þess efnis að breytingarnar komi hvorki bændum né neytendum til góða, segir Hanna Katrín að hún sé því ósammála.
„Fyrst og fremst er þetta mál miðað að því að styrkja stöðu bænda, eins og ég hef farið yfir. Ég tel líka að neytendur hafi ekki endilega notið góðs af þeim breytingum sem urðu hjá afurðastöðvunum eftir að lögunum var breytt árið 2024,“ segir hún.
„Ég bíð einfaldlega eftir að sjá rökstuðning fyrir þessari gagnrýni. En markmiðið með frumvarpinu er skýrt þ.e. að tryggja hag bænda og að þeir hafi sambærilegan rétt til hagræðingar og samvinnu og bændur í löndunum í kringum okkur. Það er í samræmi við landbúnaðarstefnu sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili.“
Ráðherrann segir jafnframt mikilvægt að lagasetningin nái jafnt til allra búgreina og að samkeppni sé viðhöfð eins og kostur er.
„Það er nákvæmlega til þess að tryggja, ekki bara hag neytenda í hinu stóra samhengi, heldur líka hag bænda, sem eru fjölmargir og ólíkir, og við viljum tryggja að það séu samræmd lög sem nái yfir starfsemi þeirra,“ segir Hanna Katrín að lokum.