Annar skiptastjóra sem fer með umsjón þrotabús Play er eiginkona eins eigenda lögmannsstofunnar BBA//Fjeldco.
Stofan er ein þeirra sem komu að samningagerð þegar veðsettar voru eignir tengdar maltneskri starfsemi flugfélagsins, í tengslum við skuldabréfaútboð sem fram fór í ágúst.
Stofan gætir áfram hagsmuna skuldabréfaeigenda sem nú hafa eignast félagið.
Skiptastjórinn er Unnur Lilja Hermannsdóttir hjá Landslögum, en hún hefur umsjón með búi Play ásamt Arnari Þór Stefánssyni hjá LEX lögmannastofu.
Unnur er gift Tómasi Magnúsi Þórhallssyni, sem er einn eigenda BBA//Fjeldco. Annar lögmaður frá sömu stofu lagði fram gjaldþrotabeiðni fyrir hönd Play undir lok síðasta mánaðar.
Viðskiptagjörningurinn sem BBA kom að snerist um veðsetningu sem skuldabréfaútgefendur – eða lánveitendur Play – kröfðust í ágúst, þegar þeir lögðu félaginu til 23 milljónir dala, sem samsvarar um 2,8 milljörðum króna.
Lánveitendurnir vildu fá veð í Fly Play Europe á Möltu til að tryggja lánveitinguna. Í því skyni var stofnað dótturfélagið Fly Play Europe Holdco á Íslandi. Veðsetningin fór í gegnum það félag til að tengja hana við flugreksturinn á Möltu.
Play entist ekki þrek til að láta viðskiptaáætlanir sínar ganga eftir og fór í þrot. Í kjölfarið eignuðust skuldabréfaútgefendurnir félagið á Möltu.
Óljóst er hvaða eignir eru þar til staðar, en meðal sviðsmynda sem velt hefur verið upp er sú að skiptastjórar fari fram á riftun til að ná til þeirra eigna sem eru í félaginu á Möltu sem aftur er nú í höndum þeirra sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu í ágúst.
Verði svo munu annars vegar Unnur, fyrir hönd þrotabúsins, og hins vegar BBA//Fjeldco, þar sem maður hennar er einn eigenda, takast á um málið.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, segir að þegar skiptastjórar séu skipaðir sé það undir þeim sjálfum komið að meta hæfi sitt.
Fjölskyldutengsl hafi ekki verið uppi á borðum við skipunina í þessu tilviki.
„Skipun skiptastjóra gerist oft mjög hratt. Við gerum frumkönnun á hæfi eftir því sem tök eru á, áður en skipun á sér stað. En svo getur ótal margt komið upp í svona stóru búi sem veldur því að einhver telur vafa ríkja á hæfi. Það kemur þó ekki til kasta dómstólsins nema gerður sé ágreiningur um hæfi,“ segir Ingibjörg.
Unnur hefur ekki svarað símtölum mbl.is vegna málsins.