„Mér verður flökurt“

Ingibjörg gagnrýnir harðlega að stjórnvöld taki ekki ábyrgð og láti …
Ingibjörg gagnrýnir harðlega að stjórnvöld taki ekki ábyrgð og láti eins og allt sé í himnalagi. Samsett mynd/Eggert/Aðsend

Ingibjörg Einarsdóttir, móðir 14 ára drengs sem glímir við alvarlegan vímuefnavanda, er mjög ósátt við viðbrögð mennta- og barnamálaráðherra vegna frétta af því að íslenskir foreldrar þurfi að leita til Suður-Afríku til að koma börnum sínum í meðferð. 

Ráðherra sagði í viðtali á sir.is í dag það ekki áfellisdóm yfir barnaverndar- og meðferðarkerfinu á Íslandi að foreldrar þyrftu að grípa til slíkra örþrifaráða. Það væri val hverrar fjölskyldu að leita aðstoðar út fyrir landsteinana, en þegar þangað væri komið hefðu íslensk stjórnvöld ekkert að gera með málið lengur.

„Mér verður flökurt, þetta er í stíl við allt sem kemur. Þetta er ástæðan fyrir því að það breytist ekki neitt, það ber enginn ábyrgð og það er ekkert í ólagi,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is, en viðbrögðin koma henni ekki á óvart.

„Þetta er ekkert nema áfellisdómur. Að maður þurfi að fara alla leið frá velferðarríkinu Íslandi, til Suður-Afríku með barnið sitt, það er galið,“ segir hún jafnframt. Það virðist engu máli skipta hvaða flokkur eða einstaklingur fari með ráðuneyti barnamála. Árum saman hafi innihaldslaus loforð verið gefin. „Þetta er allt sami skíturinn. Það gerist ekki neitt og staðan hefur bara versnað.“

Ætlar út innan tveggja vikna

Fjallað hefur verið ítarlega um úrræðaleysi í málefnum barna með fjölþættan vanda hér á mbl.is síðastliðið ár og meðal annars greint frá því að foreldrar hafi leitað út fyrir landsteinana eftir meðferðarúrræðum. 

Sjálf stefnir Ingibjörg á að fara með son sinn til Suður-Afríku innan tveggja vikna, á meðferðarstofnun sem látið er vel af, líkt og hún greindi frá í viðtali á mbl.is á föstudag.

Þar eru nú tvö íslensk börn í meðferð, en blaðamaður hefur verið í sambandi við móður annars barnsins, sem segir meðferðina hafa gengið vonum framar. Minnsta kosti tvö önnur íslensk börn hafa lokið meðferð á sömu meðferðarstofnun.

Ekki hægt að tryggja öryggi á Stuðlum

Ingibjörg hefur sagt sögu sonar síns hér á mbl.is og frá þrotlausri baráttu sinni fyrir því að koma honum í langtímameðferðarúrræði á Íslandi. Eftir að hafa mætt algjöru úrræðaleysi af hálfu Barna- og fjölskyldustofu sér hún ekki annan kost í stöðunni en að fara með drenginn úr landi. Meðferðin í Suður-Afríku kostar um þrjár milljónir króna og hefur hún hrundið af stað söfnun til að komast með hann út.

Hún bendir á að ráðherra vísi til þess að enginn biðlisti sé á Stuðlum, en það sé ekkert skrýtið í ljósi þess að leggja á meðferðardeildina niður innan skamms, líkt og mbl.is hefur greint frá, og breyta á öllu húsnæði Stuðla í neyðarvistun. Frá brunanum á Stuðlum í október í fyrra hefur ekki verið starfrækt þar hefðbundin meðferðardeild þar sem fer fram meðferð og greining, en fjögur pláss á deildinni hafa verið nýtt fyrir börn í afplánun og gæsluvarðhaldi og sem einhvers konar vistunarúrræði fyrir drengi með mjög þungan vanda, líkt og sonur hennar.

Hann var útskrifaður þaðan þann 6. september síðastliðinn af því ekki var lengur hægt að tryggja öryggi hans á meðferðarheimilinu. Hann hafði þá verið vistaður á Stuðlum í fjóra mánuði.

Reynir að halda honum á lífi

Útfærsla langtímaúrræðisins kom til af illri nauðsyn, því ekkert langtímameðferðarheimili fyrir drengi hefur verið starfrækt hér á landi í eitt og hálft ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl í fyrra. Drengir sem lokið hafa hefðbundinni tólf vikna meðferð, sem nú fer fram á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi, hafa því ekki komist í framhaldsmeðferð hér á landi.

Til stendur að opna Lækjarbakka á ný í byrjun næsta árs, en Ingibjörg segir son sinn ekki geta beðið það lengi. 

„Núna er ég bara að reyna að halda honum lifandi þangað til ég fer. Staðan var þannig í síðustu viku að hann var að éta xanax og oxy. Það var alveg galið.“

Líkt og hún sagði í samtali við mbl.is á föstudag þá óttast hún um líf drengsins hverja einustu stund. Hann er nýkominn út af neyðarvistun Stuðla, en hann var færður þangað í síðustu viku eftir að hafa tekið töluvert magn af xanax-töflum og brotið rúðu í lögreglubíl. 

Drengurinn var aðeins 13 ára gamall þegar hann lenti í slæmum félagsskap, fór að drekka og ánetjaðist fíkniefnum. Neyslan ágerðist mjög hratt en hann hafði verið afreksbarn í íþróttum og mætt á landsliðsæfingar nokkrum vikum áður en allt var komið í óefni. 

Eitthvað annað en „kjaftæðið“ hér heima

Ingibjörg vonast til að fjarlægðin frá Íslandi geri drengnum gott, en hann hefur ítrekað strokið úr þeim meðferðarúrræðum sem hann hefur verið í og sótt sér fíkniefni. Á sjö mánaða tímabili, fyrst í þriggja mánaða meðferð í Blönduhlíð og svo í fjögurra mánaða vistun á Stuðlum, skilaði hann aldrei hreinni þvagprufum, að sögn Ingibjargar.

Hún segir boðið upp á fjölbreytt meðferðarstarf á meðferðarstofnuninni í Suður-Afríku. Þar fari fram bæði einstaklings- og hópavinna, sporavinna og fjölskylduvinna. Svo geti börnin verið í vinnu og skóla.

„Það er eitthvað prógram, annað en þetta kjaftæði hérna, þar sem þau eru bara í geymslu í Playstation.“

Ingibjörg vill að stjórnvöld gangist við vandanum og viðurkenni úrræðaleysið sem hefur verið viðvarandi árum hér á landi saman. „Ég vil að það sé viðurkennt að það sé vandamál og að það þurfi að breyta einhverju. Ekki ljúga því að allt sé í góðu lagi. Ég ber miklu meiri virðingu fyrir þeim sem geta viðurkennt mistök.“

Hér eru upplýsingar um söfnun Ingibjargar:

„Kæru ættingjar og vinir.

Eins og margir vita hefur staðan á syni mínum verið mjög slæm frá því í ársbyrjun í fyrra.
Nú hef ég tekið þá ákvörðun að reyna að senda hann í meðferð til Suður Afríku þar sem að ég óttast það að hann lifi ekki af ef hann þarf að bíða eftir úrræði fram á næsta ár.
Til þess að geta sent hann í þessa meðferð í Suður Afríku vantar mig styrki. Þetta er mjög kostnaðarsamt.
Ef að þið getið eða viljið styrkja mig fjárhagslega í þessu erfiða verkefni yrði ég ævinlega þakklát ❤️
Margt smátt gerir eitt stórt ❤️
Reikningsnúmerið er: 0370-22-062740
Kennitala: 010384-2229
Ég er að reyna að óska eftir ferðastyrkjum frá sveitarfélaginu en er ekki vongóð.
Fyrirgefið þetta betl mitt, ég á því miður ekki annarra kosta völ.
Megið deila af vild❤️
Ástarkveðjur,
Ingibjörg“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert