Borið hefur á aukinni sjáanlegri gufu við þjóðveginn um Hveradali.
Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir gufupúða gjarnan myndast á tiltölulega litlu dýpi við virkjun svæða og útstreymi úr hverum.
Ari segir að þekkt sé að sumir geti horfið en aðrir færst til, t.d. í Svartsengi og Henglinum.
Besta dæmið sé þó að finna í Hverahlíðinni sunnan við veginn á leið upp á Hellisheiði þar sem holur voru boraðar vegna Hellisheiðarvirkjunar.
Allt í einu hafi byrjað að rjúka úr brúninni nokkuð austar.
Það sé þó háð veðri, bæði raka- og hitastigi, hvort hveragufa sjáist almennilega.
Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur fylgjast sérfræðingar með svæðinu.
Tilraunir hafa einnig verið gerðar með hitaloftmyndir, fyrst og fremst til að fylgjast með langtímabreytingum.




