Lítið er vitað um stöðu náttúruvísinda í íslenskum grunnskólum að undanskildum þeim upplýsingum sem við fáum úr PISA á þriggja ára fresti.
Íslensk stjórnvöld kjósa að taka ekki þátt í TIMSS-rannsóknum, ólíkt hinum Norðurlandaþjóðunum, þar sem áhersla er lögð á lykilhæfni í stærðfræði og náttúruvísindum.
Meyvant Þórólfsson, prófessor emeritus við menntavísindasvið Háskóla Íslands, vekur athygli á þessu í aðsendri grein sem birtist á föstudag.
Niðurstöður TALIS-rannsóknarinnar, sem birtar voru í morgun, sýna að aðeins 47% náttúruvísindakennara segja að náttúruvísindi hafi verið hluti af kennaramenntun þeirra.
Um 26% segja að náttúruvísindi hafi verið hluti af kennaramenntun þeirra að nokkru leyti og 26% segja að þeir hafi ekkert lært um fagið í kennaranáminu.
Þess ber að geta að þetta er nánast óþekkt hjá hinum Norðurlandaþjóðunum þar sem mjög sjaldgæft er að kennarar kenni námsgreinar sem þeir eru ekki sérmenntaðir í.
Niðurstöður PISA-könnunarinnar 2022 sýna að aðeins 64% fimmtán ára nema búa yfir grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi á Íslandi en meðaltalið innan OECD er 76%.
Þá sýna aðeins 2% íslenskra fimmtán ára nema afburðarhæfni í greininni samanborið við 7% innan OECD.
Í PISA-könnuninni sem lögð var fyrir nemendur í vor, og ekki eru komnar niðurstöður úr, var megináhersla á náttúruvísindi, áhrif mannsins á allt lífhvolf jarðar og getu nemenda til að takast á við upplýsingaóreiðu tengda náttúruvísindum.
Niðurstöðurnar eru væntanlegar á næsta ári.
Meyvant vekur athygli á að þátttökuríki í PISA-rannsóknum OECD séu 90 talsins og að þátttökuríki í TIMSS séu um 70 talsins.
„Í mörgum þessara þátttökulanda eru stærðfræði og náttúruvísindi (vísindi) skilgreind sem kjarnagreinar auk móðurmáls og því gert hátt undir höfði,“ ritar hann.
Nýju samræmdu könnunarprófin sem innleiða á í alla grunnskóla á þessu skólaári, sem nefnast matsferill og var flýtt eftir umfjöllun mbl.is, mæla ekki læsi á náttúruvísindi.
Ekki er vitað hvenær sá hluti verður innleiddur, en til að byrja með verður aðeins prófað í íslensku og stærðfræði.
Nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndum fengu upplýsingar um stöðu grunnskólabarna í stærðfræði og náttúruvísindum í desember, þegar nýjustu TIMSS-niðurstöðurnar voru kunngjörðar.
Allar Norðurlandaþjóðirnar hafa lagt könnunina fyrir nemendur sína frá upphafi árið 1995, fyrir utan Ísland sem lét duga að taka aðeins þátt það eina ár.