Óljóst hver greiðir skuldina

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir að það …
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir að það eigi eftir að koma í ljós hver kemur til með að greiða skuld Play vegna losunarheimilda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að enn sé óljóst hver muni greiða 1,2 milljarða króna skuld vegna losunarheimilda Play.

„Það á allt eftir að koma í ljós. Til að gera langa sögu stutta þá er það þannig að uppgjörskerfi losunarheimilda og stjórnsýsla því tengd er hjá Umhverfis- og orkustofnun. Ákvarðanir sem teknar eru þar í einstökum málum eru kæranlegar til mín,“ segir ráðherrann.

„Þannig að ég hef farið frekar varlega í að tjá mig um einstök mál sem þessu tengjast. En varðandi losunarheimildir almennt, þá er þetta hluti af rekstrarumhverfi flugfélaganna í Evrópu. Flugrekendur hér hafa notið góðs af sérlausnum sem íslensk stjórnvöld hafa barist fyrir,“ bendir hann á í samtali við mbl.is eftir ríkisráðsfund í morgun.

Taka mið af aðstæðum Íslands

Að sögn Jóhanns Páls munu stjórnvöld áfram beita sér af krafti fyrir íslenskum hagsmunum í þessum efnum.

„Við höldum áfram að beita okkur af alefli fyrir íslenskum hagsmunum og að tekið sé mið af sérstökum aðstæðum Íslands, m.a. þegar kemur bæði að legu okkar og tengifluginu sérstaklega. Það er starfandi starfshópur þar sem utanríkisráðuneytið fer með málin að mestu leyti, en í þeim hópi situr einnig fulltrúi frá mínu ráðuneyti.“

Aðspurður hvort málið kalli á breytingar á því hvernig uppgjöri losunarheimilda er háttað segir hann það eiga eftir að ráðast.

„Það á allt eftir að ráðast og ekki kannski tímabært að segja neitt um það að svo stöddu. En þetta er auðvitað hluti af EES-samstarfinu sem hefur fært okkur mjög mikið. Um leið skiptir gríðarlegu máli að stjórnvöld séu vakandi og beiti sér af krafti fyrir hagsmunum Íslands í þessu samstarfi,“ segir Jóhann Páll. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert