Peningurinn kláraðist í ágúst

Gígja Svavarsdóttir hjá Dósaverksmiðjunni.
Gígja Svavarsdóttir hjá Dósaverksmiðjunni. mbl.is/Ásdís

Gígja Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri tungumálaskólans Dósaverksmiðjunnar, segir margt meingallað þegar kemur að kerfinu í kringum kennslu íslensku sem annars máls.

Skólar sem sinna slíkri kennslu eru ekki aðeins fjársveltir heldur er enginn fyrirsjáanleiki þegar kemur að fjárveitingum.

Þá gerir ríkið engar kröfur þegar kemur að til dæmis þekkingu kennara í tungumálaskólum og ekkert mark er tekið á gæðum kennslu eða þróunarstarfi í hverjum skóla fyrir sig þegar styrkir eru veittir.

Á enn eftir að úthluta fjármagninu

Nokkuð hefur verið rætt um kennslu íslensku sem annars máls síðan að ríkisstjórnin kynnti ný fjárlög í síðasta mánuði en samkvæmt þeim ætla stjórnvöld að draga úr fjárframlögum til íslenskukennslu til útlendinga.

Framlögin verða um 360 milljónir í stað 564 milljóna í fjárlögum síðasta árs. Mestu munar um aukalegt tímabundið framlag upp á 250 milljónir sem lagt var fram á þessu ári og fellur það nú niður.

Spurð hvort þetta aukalega fjárframlag til eins árs hafi á einhvern máta skilað sér inn í starf Dósaverksmiðjunnar segir Gígja að enn eigi eftir að úthluta fjármagninu og að umsóknarfrestur um styrk sé ekki liðinn.

Frá kennslustund í Dósaverksmiðjunni.
Frá kennslustund í Dósaverksmiðjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög mikill galli“

Vandamálið við þennan styrk sé hins vegar, að hennar mati, að hver sem er sem er með góða hugmynd til að efla íslenskukunnáttu innflytjenda geti sótt um.

„Þannig að þetta kemur ekki til með að auka gæði námsins sem er verið að byggja upp. Það er bara enn einu sinni verið að finna eitthvað eitt nýtt verkefni sem verður svo kannski aldrei endurtekið aftur og það er mjög mikill galli.“

Þá segir Gígja aukafjárframlög til eins árs ólíkleg til þess að byggja upp íslenskukennslu til lengri tíma.

„Að læra tungumál er langtímaverkefni og það þarf að byggja upp og tryggja að það sé fjölbreytt námsframboð, alltaf, ekki bara í eitt ár. “

Ekki hægt að reka neitt fyrirtæki svona

Þá segir Gígja margt meingallað þegar kemur að almennum fjárveitingum ríkisins til skóla sem sinna íslenskukennslu fullorðinna útlendinga. Lengi var málaflokkurinn á borði félags- og vinnumálaráðuneytisins en liggur nú hjá barna- og menntamálaráðuneytinu.

„Almennt og yfirleitt þá er það þannig að framhaldsfræðslan sækir um einn styrk á ári sem að hefur ekki hækkað miðað við verðlag. Við fáum að vita í febrúar hvað við fáum fyrir árið þannig að við getum aldrei gert fjárhagsáætlun af því að við vitum aldrei hvað við fáum,“ segir Gígja.

„Það er ekki hægt að reka neitt fyrirtæki svona. Að vita ekki hversu marga kennara maður getur haft, hversu mörg námskeið maður getur kennt. Líka því þetta er alltaf fljótandi upphæð. Við vitum aldrei hvað er í pottinum og þar að auki þá virðist vera algjör hentisemi hvernig þessu er skipt upp.“

Mun fleiri nemendur en styrkur er fyrir

Dósaverksmiðjan hefur lengi verið stærsti skólinn í íslenskukennslu fyrir útlendinga en hefur þó aldrei fengið hæsta framlagið frá ríkinu.

Í ár fékk hann í fyrsta skipti jafnt hátt framlag og Mímir en styrkurinn til skólans hefur aldrei verið hærri.

Skólinn fékk styrk fyrir 1.800 nemendur en sá peningur kláraðist nú í ágúst þar sem 3.000 nemendur sækja skólann.

Gígja hefur beðið um að úthlutunarkerfinu verði breytt þannig að tekið verði mið af hlutfalli nemenda í hverjum skóla þegar styrkjunum er úthlutað, fyrst og fremst til að hafa kost á því að gera fjárhagsáætlun.

Margir nemendur Dósaversmiðjunnar lesa ekki lattneskt letur þegar þeir hefja …
Margir nemendur Dósaversmiðjunnar lesa ekki lattneskt letur þegar þeir hefja nám í skólanum. Ljósmynd/Árni Torfason

Engar kröfur 

Þá segir Gígja athugavert að engar kröfur séu gerðar til kennslunnar sem styrkþegar veita, til dæmis um hvort námið sé á íslensku né um færni kennara.

„Það sem ég er búin að vera að biðja um er að það eigi að vera kröfur á móti á þessum styrkjum. Til dæmis með gæði, með því er ekki fylgst. Það er ekki verið að skoða hvernig skólarnir vinna.“

Í Dósaverksmiðjunni er mikið lagt upp úr þjálfun kennara áður en þeir byrja að kenna námskeið en svo er ekki alls staðar.

Verðlaunuð þróunarverkefni ekki styrkt sérstaklega

Þá hefur skólinn sömuleiðis lagt mikið upp úr þróunarstarfi, hefur meðal annars framleitt eigið námsefni og komið á laggirnar verkefni þar sem unnið er eftir svokallaðri LESLLA hugmyndafræði en þar er námskrá fyrir fólk sem er allt frá því að vera ólæst á sínu móðurmáli upp í það að kunna ekki letur landsins þar sem það býr.

Það verkefni hlaut fyrr í ár Evrópumerkið, verðlaun framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu.

Ekki er heldur horft til slíks þróunarstarfs þegar kemur að styrkveitingu til skólans.

„Maður hefði haldið sko að þróunarstarf innan skóla ætti að vera meira metið heldur en námskeið þar sem fólk kennir bara risastórum hópi með óvönum kennurum og gerir enga kröfu um hvort er kennt á íslensku eða ekki,“ segir Gígja.

Að lokum tekur hún fram að alls staðar megi finna góða kennara en að heildarstefnu í kennslu vanti og það megi skrifa að hluta á stefnuleysi stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert