Framkvæmdastjóri Hótels Djúpavíkur segir liðið sumar fara í sögubækurnar fyrir tvennt, annars vegar gott veður og hins vegar óvenju slakt vegaviðhald. Segir hann veginn í hreppnum sjaldan eða aldrei hafa verið verri.
Á sama tíma og fjöldi ferðamanna hafi lagt leið sína á Strandir í veðurblíðuna hafi veghefillinn aðeins sést í mýflugumynd. Veghefillinn hafi undanfarin sumur komið tvisvar, og stundum oftar, í hreppinn en nú í sumar hafi hann aðeins komið einu sinni.
Þetta kemur fram í aðsendri grein hans á BB.is.
„Það er mitt mat að fyrrverandi ríkisstjórnir og sitjandi stjórnvöld, núverandi og fyrrverandi þingmenn hafa algjörlega brugðist þessu afskekktasta og einu fámennasta sveitarfélagi landsins,“ segir hann.
„Þrátt fyrir góð fyrirheit ráðamanna og átaksverkefni til að styðja við byggð í þessari afskekktustu sveit landsins hefur ástand veganna hér fyrir norðan farið hratt versnandi,“ ritar Héðinn Birnir Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Hótels Djúpavíkur og Baskasetursins.
Hann segir margt jákvætt hafa gerst síðustu ár í hreppnum og nefnir kynslóðaskipti bænda, öflugar strandveiðar, ferðaþjónustu sem sækir í sig veðrið og Finnbogastaðaskóla sem opnaði nýverið aftur.
„Skólinn hefur verið rekinn í samstarfi við skóla í nágrannasveitarfélögum sem kallar á tíðar ferðir milli byggðalaga á þessum stórlega vanrækta vegarkafla með tilheyrandi álagi á fólk og tæki,“ segir í greininni.
„Nú nýlega var lögð aukin pressa stjórnvalda á sveitastjórn Árneshrepps og aðliggjandi sveitarfélaga að sameinast strax. Ætla mætti að grunnforsenda þess að sameina sveitarfélög, að hægt sé að ferðast innan þess nýja sameinaða sveitarfélags, með mannsæmandi hætti.“
Héðinn segir að til langs tíma sé eðlilegt að sveitarfélög séu með lágmarksfjölda íbúa til að hægt sé að tryggja lágmarksþjónustu. Aftur á móti þyki honum eðlilegt að gera þá kröfu að ríkið skapi með tilheyrandi uppbyggingu innviða skilyrði til þess að sameina afskekkt sveitarfélög eins og Árneshrepp með öðrum aðliggjandi sveitarfélögum.
Hann segir það vera pólitíska ákvörðun að Árneshreppur sé alltaf látinn mæta afgangi. Síðustu 25 árin hafi engar stórtækar vegaframkvæmdir átt sér stað, á hann þá við uppbyggingu vega og uppfærslu þeirra til nútímakrafna.
„Þessi grein er ákall um að bæta óviðunandi stöðu vegamála á norðanverðum Ströndum. Við sem þjóð getum gert betur við að hlúa að hinum dreifðu byggðum landsins og þannig styrkt mikilvægan byggðafjölbreytileika, sem er mikilvægur þegar horft er á landið sem áningarstað ferðamanna,“ skrifar Héðinn.
„Ekki allir ferðamenn sem hingað koma eru að leita að upplifun í mannþröng við Gullna hringinn. Ferðamenn sækja í auknum mæli í kyrrð og víðerni í byggðum eins og Árneshreppi.“