Rokkhátíðin Eyrarrokk fór fram á Akureyri um liðna helgi. Tólf hljómsveitir komu fram á föstudags- og laugardagskvöld, sex sveitir hvort kvöld en hátíðin var haldin í fimmta sinn í ár.
Að Eyrarrokki standa þeir Rögnvaldur gáfaði, Hvanndalsbróðirinn Sumarliði Helgason og Helgi Gunnlaugsson vert á veitingastaðnum Vitanum en hátíðin fór einmitt fram á tónleikastaðnum Verkstæðinu sem er í húsnæði Vitans.
Landsþekktar sveitir spiluðu á hátíðinni í bland við minni spámenn að norðan og kynnir á hátíðinni í ár var útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson (Óli Palli á Rás 2).
Uppselt var á tónleikana en 200 helgarpassar seldust strax í maí.
Stórsveitin Skálmöld opnaði á föstudagskvöldið en sveitin hljóp í skarðið fyrir hljómsveitina LOST með skömmum fyrirvara.
Biggi Maus og Memm stigu þá á stokk áður en hin goðsagnakennda akureyska Toy Machine tryllti lýðinn. Bleiku bastarnir voru næstir á svið en þeir komu saman eftir 35 ára hlé á Eyrarrokki á síðasta ári.
Þá var komið að þætti 200.000 naglbíta sem slógu ekki feilnótu og fengu viðstadda til að þenja raddböndin áður en gleðisveitin Skriðjöklar lokaði kvöldinu en Skriðjöklar komu saman opinberlega í fyrsta sinn í 13 ár. Karl Örvarsson leysti Ragnar Gunnarsson (Ragga Sót), söngvara Skriðjöklanna, af í þetta sinn.
Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra dansaði eins og honum einum er lagið og tók m.a.s. lagið með bandinu. Logi mætti vel klæddur í tilefni dagsins og sló algjörlega í gegn en Logi hefur verið viðloðandi sveitina frá stofnun hennar.
Laugardagskvöldið opnaði hljómsveitin Texas Jesús sem stofnuð var á tíunda áratugnum og kom saman á ný fyrir Eyrarrokk. Þá var komið að hljómsveitinni Skandal og svo Svörtu köggunum áður en austfirska sveitin SúEllen steig á svið.
Jeff Who taldi svo í – einn, tveir, þrír, fjór – áður en Jens Ólafsson og félagar í Brain Police lokuðu hátíðinni á sinn hátt.