Segir sveitarfélagið rekið eins og þrotabú

Guðbergur Reynisson er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður fagráðs um …
Guðbergur Reynisson er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður fagráðs um umferðarmál. Ljósmynd/Aðsend

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ gagnrýnir að ekki hafi verið hugað að öryggi gangandi vegfarenda við Fitjabakka og Fitjabraut, þar sem nýjar stórverslanir hafa risið. Hann segir fólk þurfa að taka áhættu til að komast leiðar sinnar og spyr meirihlutann hvenær hætta eigi að reka bæjarfélagið eins og „þrotabú“.

Í færslu sem Guðbergur Reynisson bæjarfulltrúi birti á Facebook segir hann að á bæjarstjórnarfundi í dag hafi verið til umræðu fundargerðir Umhverfis- og skipulagsráðs, þar sem rætt var um göngu- og hjólastíg við Fitjabraut.

„Eins og allir vita hafa nýlega opnað glæsilegar verslanir Krónunnar, Byko og Gæludýr.is við Fitjabraut. Við hið glæsilega bílaplan útbjuggu þessir aðilar fallegan göngustíg fyrir viðskiptavini sína, sem er til fyrirmyndar. Það er því sjálfsagt framhald að halda áfram með stíginn norður Fitjabraut að Sjávargötu – og ekkert við það að athuga,“ skrifar hann.

Hringtorgi bolað í gegn í flýti

Guðbergur segir þó að hann hafi óskað eftir því að sjá hvernig bæjaryfirvöld ætli að leysa umferð gangandi og hjólandi til suðurs, frá Ásahverfi, Innri-Njarðvík og Ásbrú.

„Í miklum flýti var bolað í gegn hringtorgi við Njarðarbraut og Fitjabakka til að reyna að leysa umferðarvandann sem skapaðist við opnun þessara risaverslana. Hið glæsilega hringtorg er komið, þó að íbúar og fyrirtækjaeigendur hafi sett spurningamerki við framkvæmdina, en engin lausn er komin fyrir gangandi vegfarendur,“ segir hann.

Guðbergur bendir á að Fitjabakkinn, sem tengir Njarðarbraut við Fitjabraut, hýsi nú stærstu matvöru-, byggingarvöru- og gæludýraverslanir bæjarins auk fjölda annarra fyrirtækja.

„Samt er Fitjabakkinn án gangstétta eða gangbrauta,“ skrifar hann og bætir við að gangandi vegfarendur þurfi að taka verulega áhættu til að komast á nærliggjandi staði.

Gatnagerðargjöld „rukkuð í botn“

Hann segir einnig að lokun á öðrum stútnum út af ÓB-planinu hafi skapað hættu þegar vörubílar reyni að snúa við eða bakka inn á bensínstöðvarplanið.

Guðbergur minnir á metnaðarfulla umferðaröryggisáætlun sem samþykkt var í fyrra og segir litlu hafa verið hrint í framkvæmd.

„Starfsfólk skipulagssviðs hefur nefnilega fengið ansi lítinn fjárhagsramma, þrátt fyrir að gatnagerðargjöld séu rukkuð í botn,“ skrifar hann og bætir við að engir fjármunir séu til umferðargreininga eða lagfæringa.

Að lokum segir Guðbergur að hann hafi beint spurningu til meirihlutans:

„Hvenær ætlum við að hætta að reka bæjarfélagið eins og þrotabú, og fara að hugsa til framtíðar?“

„Ég á von á svari við þessum spurningum fljótlega,“ segir Guðbergur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert