Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins óskaði eftir svörum um hversu mörg þingmál ríkisstjórnin hygðist leggja fram sem ekki er getið í þingmálaskrá.
Hann gerði kílómetragjaldsfrumvarp Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra að umtalsefni á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.
„Andsvör við ræðu hæstvirts ráðherra voru stórmerkileg, svo vægt sé til orða tekið. Þar kom fram bæði að auknar tekjur af veiðigjaldi munu í engu ganga til samgönguframkvæmda á landsbyggðinni en það sem kannski vakti meiri athygli var að hæstvirtur fjármálaráðherra sagði að á þessu haustþingi yrði lagt fram frumvarp sem hækkar skatta og gjöld á ökutæki um 7 milljarða umfram það sem fyrir er núna,“ sagði Bergþór.
Óskaði hann eftir svörum um hvað ríkisstjórnin hygðist leggja fram mörg mál á þessu þingi sem ekki er getið í þingmálaskrá.
„Auðvitað er óþægilegt að það liggi fyrir í þingmálaskrá að það eigi að leggja fram frumvarp sem hækkar skatta og gjöld af ökutækjum um 7 milljarða. En það er heiðarlegt og rétt að gera það, sérstaklega í ljósi þess að það mál er forsenda þess að fjárlög haldi,“ sagði Bergþór.
Hann sagði þetta verklag fjármálaráðherra vera óboðlegt.
„Fjármálaráðherra sagði hér í gær í andsvari að það komi fram frumvarp upp á 7 milljarða gjaldahækkun sem hvergi hefur verið getið í þingmálaskrá. Þetta er ekki verklag sem tækt er.
