Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skoraði á Guðmund Inga Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra að grípa til aðgerða og koma börnum sem glíma við fíkniefnaneyslu til bjargar áður en það verður of seint.
„Af hverju sættum við okkur við það að börnin okkar þjáist og deyi án þess að gera okkar besta? Af hverju getur fólk fengið fjárhagslega aðstoð við efnaskipta- og liðskiptaaðgerðir erlendis en fjölskyldur barna með vímuefnavanda bera allar byrðarnar sjálfar?“ sagði Diljá Mist.
mbl.is hefur fjallað ítarlega um úrræðaleysi sem foreldrar barna með vímuefnavanda mæta í kerfinu. Nýlega var rætt við tvær mæður sem misstu börnin sín úr sjálfsvígi eftir áralanga baráttu við fíknivanda og geðræn veikindi.
Þær segja börnin sín aldrei hafa fengið þá hjálp sem þau þurftu til að eiga möguleika á því að fóta sig í lífinu.
mbl.is ræddi í síðustu viku við móðir 14 ára drengs sem hefur glímt við alvarlegan fíknivanda í eitt og hálft ár. Hún reynir nú að safna fyrir dvöl á meðferðarstofnun í Suður-Afríku þar sem ekkert langtímaúrræði er í boði hér á landi fyrir drengi, og hefur ekki verið í eitt og hálft ár.
Meðferðin er kostnaðarsöm og má gera ráð fyrir níu til tólf mánaða meðferð kosti a.m.k. 3 milljónir króna. Það er án ferðakostnaðar. Enginn styrkir virðast vera í boði og lendir allur kostnaður á foreldrum.
„Þær bera allar byrðarnar sjálfar. Ef ég vissi ekki betur þá hélt ég að þessi sjúkdómur herjaði ekki á fína fólkið. Ekki ráðherrana, ekki þingmenn, ekki dómara og ekki á embættismenn. En ég veit betur og ég skora á hæstvirtan ráðherra að koma börnunum okkar til bjargar áður en það verður of seint.“