Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Antti Häkkänen, varnarmálaráðherra Finnlands, undirrituðu í Helsinki í dag tvíhliða samstarfsyfirlýsingu um varnarmál.
Samstarf ríkjanna mun meðal annars ná yfir samráð um varnarstefnu, gistiríkjastuðning, hreyfanleika herafla, eftirlit, upplýsingagjöf, loftrýmiseftirlit og loftvarnir, fjölþáttaógnir, æfingar og þjálfun, mannauð og rannsóknir og þróun.
Undirritunin fór fram í tengslum við opinbera heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Finnlands.
Fram kemur í tilkynningu að yfirlýsingin undirstriki vilja ríkjanna til að styrkja frekar samvinnu sína á sviði varnarmála, ekki síst í ljósi verulegra breytinga á öryggislandslagi Evrópu og að Finnland og öll Norðurlöndin séu nú orðin aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu.
Með samstarfinu leitist ríkin við að styrkja varnir sínar og framlög til svæðisbundinna öryggismála og auka samskipti og upplýsingagjöf um sameiginlega varnarhagsmuni.
„Samkomulagið er liður í því að styrkja varnarsamstarf Íslands við Finnland, sem er mikilvægur bandamaður og vinaþjóð. Hagsmunir okkar liggja þétt saman, við eigum náið samstarf á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Norðurlandasamvinnu, þ.m.t. á vettvangi norræna varnarmálasamstarfsins NORDEFCO og samstarfsvettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja,“ segir Þorgerður Katrín í tilkynningunni.
„Yfirlýsingin undirstrikar aukna áherslu Íslands á svæðisbundið og tvíhliða samstarf við nágrannaríki og lykilbandamenn, líkt og fleiri vinaþjóðir leggja áherslu á um þessar mundir. Ekki síst til að styðja við og styrkja meginstoðir Íslands í varnar- og öryggissamstarfi, það er aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin,” segir hún jafnframt.