„Það vilja auðvitað allir sjá lægri vexti, en það tekur auðvitað mið af aðstæðum og þenslunni í samfélaginu. Það getur vel verið að breyttar horfur á vinnumarkaði breyti einhverju í skoðun Seðlabankans en það er ekki mitt að segja til um á þessum tíma.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is spurð hvort, í ljósi frétta af gjaldþroti Play, uppsögnum hjá fyrirtækjum og efnahagsstöðunni, hún telji Seðlabankann þurfa að lækka stýrivexti við næstu vaxtaákvörðun til að koma í veg fyrir mögulega niðursveiflu.
Seðlabankinn kynnir á morgun næstu stýrivaxtaákvörðun sína. Stýrivextir bankans eru 7,5% og hafa haldist óbreyttir frá því í maí.
Verðbólga mældist 4,1% í september og hækkaði um 0,3 prósentustig milli mánaða.
Verðbólgan hækkaði milli mánaða í síðusta mánuði og virðist vera þrálát í kringum 4%. Hvernig ætlið þið að glíma við þetta, þurfið þið að fara í frekari aðhaldsaðgerðir?
„Verðbólga hefur lækkað talsvert á síðustu mánuðum en hún er þrálát við þessi efri vikmörk Seðlabankans. Þetta er svo sem gömul saga og ný, ekki bara hér heldur líka víða annars staðar. Oft getur verið erfitt að ná henni í markmiðið svona síðustu þrepin. Við höfum sagt ef það þarf að gera meira hraðar þá gerum við meira hraðar. Við gerum það sem við ráðum við,“ segir Kristrún.
Verðbólga fór niður í 4,2% í febrúar, eftir að hafa farið hæst í 10,2% í febrúar 2023. Síðan þá hefur hún haldist í kringum 4%.
Jóhann Elíasson:
HVAR ER ÞENSLA Í ÞJÓÐÉLAGINU???????
